Barnalán

P1010079 Anna Guðrún er 11 ára í dag. Ég hef ekki kaffiveislu fyrir vini og ættingja nema í 10 fyrstu afmælunum. Það er því mikið búið að pæla í hvernig eigi að halda upp á daginn. Niðurstaðan var að bjóða bestu vinkonu sinni í eitthvað skemmtilegt og þá vandaðist nú málið, því hún á aðeins of margar bestu vinkonur fyrir minn skóda-bíl Pinch. Mér tókst ekki að fá lánaðan mini-böss fyrir daginn, þannig Guðlaugur fór í sveitina og Agnes verður staðsett hjá vinkonu sinni á meðan við hinar förum og tjúttum eitthvað saman, því ég verð náttúrulega að fylgja með sem bílstjóri. Ákveðið var að fara í sund í Þorlákshöfn, bíó í Reykjavík og svo að borða einhversstaðar, enda svo á náttfötunum heima með popp og snakk.

Glæsilegt ekki satt?!
Nei, þá er ein fingurbrotin og getur ekki farið í sund. Ég hélt að það yrði nú ekki mikið mál, hinar gætu farið í sund og við og þessi fingurbrotna gætum gert eitthvað saman á meðan. Anna Guðrún horfði á mig lengi... "Hva, heldurðu að henni finnist ekki gaman að vera með mér?" spurði ég.
Hún kaus að svara þessu ekki.

Við ætlum því að fara í keilu í staðinn fyrir sund, bíóið stendur og svo sjáum við til hvar þær borða.
Mín ólétta Píla ætlar að passa húsið á meðan Joyful.


Faðmlög í pósti

Bloggarar geta nú faðmast sín á milli með því að senda tölvupóst Smile. Það er nú mikið gott og hér með faðma ég alla sem villast inn á þessa bloggsíðu InLove.

Mér finnst þetta í raun og veru jákvætt og falla vel að öllum auglýsingunum núna um að það besta í lífinu sé ókeypis og við eigum að muna eftir að vera góð hvert við annað, taka utan um hvert annað og svo framvegis. Það veitir ekki af þegar fólki líður misvel yfir ástandinu í þjóðfélaginu.
Mig langar samt til að hafa orð á því að það er líka alveg sjálfsagt, nauðsynlegt og óskaplega notalegt að faðma mann og annan þó svo að öllum líði vel Smile.

Knús og kossar til þín sem lest þessar línur Kissing.


Barnasögur.

Fyrst ég er farin að segja gamansögur af börnunum mínum, þá langar mig að rifja upp kvöldmatarstund þegar eldri dóttir mín var 5 ára.

Ég hafði ákveðið að hafa pasta í matinn, en þegar til kom þá átti ég eitthvað lítið til af því. Ég blandaði því saman því sem ég átti og drýgði það svo með makkarónum. Gasalega bragðgott. Anna Guðrún sat við matarborðið og hrærði þessu til og frá, en hún er allajafna nokkuð ánægð með að fá pasta. Svo segir hún:

"Mamma! Sko... skrúfurnar eru alveg góðar og slaufurnar, en mér finnast þessir símar eiginlega ekkert sérstakir!"

Síðan hafa makkarónur verið kallaðar símar á mínu heimili LoL.


Það læra börnin sem fyrir þeim er haft.

Ég fór inn í bæ í sveitinni sem ég hef ekki komið inní áður og hitti þar konu sem ég hef ekki hitt áður. Eins og mér var kennt í gamla daga, þá gekk ég að konunni, rétti henni höndina og sagði: "Komdu sæl, Hulda heiti ég!"  Haldiði að litla skottan mín komi ekki inn á eftir mér, drífur sig úr peysunni, gengur að konunni, réttir henni höndina og segir: "Koddu sæl, ég heiti Agnes!"

Ég tek það fram að hún er nýlega orðin þriggja ára!! Það var ekki laust við að ég væri stolt af henniSmileInLove!!

Mér finnst þetta líka mun jákvæðari eftirbreytni, heldur en þegar hún barði í borðið með krepptum hnefa og sagði hátt og snjallt: "Andskotinn!"
Þá var hún alveg að verða tveggja ára og ég vissi að hún hafði þetta eftir mér. Ég var ekki alveg eins stolt þá...Blush


Gleymin

Fólk þarf ekki að þekkja mig mikið til að vita að ég er alveg hryllilega gleymin. Man ekki fyrir horn eins og sagt er. FootinMouth Núna hef ég t.d. gleymt láta fréttast að ég er aftur farin að syngja. Maður er einhvernveginn virkari í svoleiðis vafstri á veturna heldur en á sumrin.

Ég fór semsagt aftur í Ljósbrá nú í haust og er að syngja í kirkjukór Marteinstungu- og Hagasóknar líka... Svolítið slæmt þegar ég gleymi að mæta í messurnar samt Blush...
En í gærkvöldi var fyrsta söngframkoma okkar í Ljósbrá á þessum vetri. Við hittumst fimm (5) kórar á Flúðum í gærkvöldi og sungum nokkur lög hver fyrir annan. Það var mjög gaman og ég held að það hafi tekist ágætlega, þó svo að mæting kórfélaga hafi verið fyrir neðan 50%. Eins gott að það eru tæplega 40 konur í þessum kór. En við þöndum okkur þarna sem aldrei fyrr og fólk klappaði, en Hreppamenn eru reyndar þekktir fyrir kurteisi og góða siði, þannig að kannski var það ekki alveg marktækt GetLost...

Þetta var virkilega gaman. Var eiginlega búin að gleyma því hvað maður fær mikið út úr því að syngja svona út um dintinn og dantinn. Smile


Þjóðfélagið

Ég velti því aðeins fyrir mér af hverju sumir af þeim stráklingum sem hafa leikið sér með tölur nokkur síðastliðin ár hafa horfið sporlaust þegar vandinn knýr á af þeirra völdum að því er virðist???

Það er ljóst að "auðmennirnir" , sem flugu um í einkaþotum eða keyptu sér þyrlu voru ekki að leika sér með peninga, heldur eingöngu tölur. Allavega eru þessir peningar hvergi til í dag. Það vita líka allir hálfvita menn að tölurnar í kauphöllinni byggjast ekki á beinhörðum peningum (eins og gull t.d.) heldur á geðþótta þeirra sem vilja kaupa eitthvað af þeim bréfum sem þar eru til sölu.
Samt gátu þeir nú keypt sér þyrlu og tölurnar skiptu um eigendur. Ég veit ekki alveg hvernig þetta virkar. Ég keypti bara mjólk og brauð (sennilega mistök...)

En það sem ég er að velta fyrir mér er t.d. maðurinn sem stjórnaði Glitni á síðasta ári... Fyrstu stafirnir eru Bj Á. Hvar er hann núna?   Hvers vegna ákvað hann að yfirgefa Glitni þegar hann gerði það?    Hvað tók hann ekki mikið með sér af skiptimynt þegar hann fór???  Getur verið að hann hafi vitað eitthvað um það í hvað stefndi?

Ég er þeirrar skoðunar að þeir eigi að vera skaðabótaskyldir þessir einstaklingar sem rökuðu til sín fé, gáfu saklausu fólki ráð, fólki sem nú er jafnvel allslaust og meira en það og sér enga lausn á sínum vanda. - Ef eitthvað af þessum tölum sem þeir léku sér með eru í dag peningar, þá eiga þeir að leggja eitthvað af þeim til baka í hýtina sem þeir lögðu grunninn að.


Píla er týnd

Það fór nú þannig að ástin InLovegreip hana Pílu mína og hún lagði af stað út af Örkinni í gærkvöldi í fylgd nágrannahundsins; Mola. Það var reyndar ekki kokteill sem ég ætlaði að blanda, var búin að sjá hund hér í sveitinni sem ég ætlaði með hana til og fá hreinræktaðan border collie. Moli er hins vegar íslenskur og Píla átti ekki að falla fyrir honum.

En það er svona með þessa táninga, maður ræður víst ekki hverjum þeir falla fyrir. Það er allavega alveg ljóst að þegar hún Píla skilar sér og ég vona að hún geri það en verði ekki undir bíl á þessu flakki sínu, þá verður hún tík ekki einsömul og lítur út fyrir aukinn fjölda heimilisfastra í Giljatanganum og fjörug jól Woundering


Netsambönd

Þar sem ég bý er lélegt netsamband,- nú hefur mér reyndar verið tjáð að þar sé hægt að breyta og ég ætla að kanna það strax í fyrramáls. Ég hef nefnilega verið netlaus núna í 5 daga og það tók mann (vanan mann) klukkutíma að koma því í lag hjá mér áðan.
Mér finnst það hrikalega lélegt - netið altsvo og er stöðugt að detta út.
Þar sem ég er ekki mjög tæknivædd sjálf eða tæknilega sinnuð, þá nota ég það sem mér býðst og er svakalega ánægð ef það dugar smá stund. Já, eða svo til alltaf, en nú er mér nóg boðið og ætla að leggja á mig að komast að því hvað sé betra en þetta.

Annars var ég í réttum fyrir helgi, sennilega þeim síðustu þetta árið. Landréttum - flottur staður,- á bak við Heklu. Wink 
Að þeim loknum fór ég á tveggja daga kennaraþing á Hótel Örk sem var mjög fróðlegt. Skemmtilegt líka. Svo var saumaklúbbur á föstudagskvöld og helginni síðan eytt í slökun. - Já og tiltekt,- ótrúlega myndarleg!!!


Jákvætt hugarfar

Það er blogg-markmið hjá mér að vera jákvæð,- já og bara almennt markmið hjá mér að vera jákvæð. En nú reynir mjög á mitt jákvæða hugarfar.

Á ekkert að stytta upp????

Ég ætla í réttir á fimmtudagsmorgun og ef það heldur áfram að rigna svona, þá verða það ógeðslega drullugar réttir Angry Það er ekki minn tebolli!
Annars þarf ég ekki að kvarta mikið,- eymingjans fólkið sem er uppá fjöllum að smala rolluskjátunum til byggða,- þeim er vorkunn!

Svo fer ég á kennaraþing beint úr réttunum. Það verður haldið í Hveragerði í þetta skiptið, annars hefur það verið á Flúðum. Alltaf gaman að breyta til og Hveragerði er einn af mínum uppáhaldsstöðum, þannig að þetta er ofsalega fínt.

Sko - mér tókst að vera jákvæð. Smile


Ekki nóg með það...

Hann heitir: 
George Walker Bush
George W. Bush

Hvernig má þýða það?

Georg Gangandi Runni...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband