Heilsan

Ég held að ekkert sé mikilvægara en heilsan. Það finnur maður þegar hún bregst manni. Ég fékk að vita það í gær að bakið á mér væri ónýtt að hluta ef ekki alveg allt saman. Allavega líður mér þannig núna.

Eftir að hafa farið í segulómun og fengið að prófa þetta magnaða rör sem fólk með innilokunarkennd hræðist svo mjög,- það reyndar var upplifun sem var alls ekki slæm, kom í ljós að ég er með skrið í hryggnum uppá 7 millimetra. Og hafandi reynslu af bæði saumaskap og smíðum, geri ég mér grein fyrir að það er bara skrambans ári mikið.  - Verð reyndar að viðurkenna að verkirniir eru líka skrambans ári miklir.

Liðþófinn hefur ýtt einhverju brjóski utan í taug sem liggur niður í vinstri fót og þar með koma þessar kvalir sem hafa glatt mig undanfarnar vikur. Einhvernveginn er alltaf léttir þegar niðurstaða er fengin og maður veit af hverju maður finnur til.

Ég hef talað við nokkuð marga einstaklinga í dag og í gær og að sjálfsögðu er ég ekkert ein um  að hafa lent í svona löguðu og flestir eru í fullri vinnu og líður bara bærilega, þannig að ég er alls ekki vonlaus. Nú tekur bara við baráttan við að ná heilsu aftur og síðan að halda henni. Mig langar alveg óskaplega mikið til að losna við aðgerð, en á eftir að finna almennilega útúr því hvernig ég kemst hjá því.

Fyrst í stað á ég að liggja kyrr,- grafkyrr, á hægri hliðinni (til að hlífa þeirri vinstri...) og athuga hvort verkirnir minnka eitthvað (hafið þið prófað að pikka á lyklaborð liggjandi á hægri hliðinni og verandi rétthent???  Það er nokkuð flókið.) En þetta er samt hlutur sem ég hef átt frekar erfitt með að höndla í gegnum tíðina - að vera aðgerðarlaus - og því verður það líklega erifðasta lexían mín.

En við erum hér til að læra og svo lengi lærir sem lfiir. Nú ætla ég að læra að hafa hægt um mig.


Long time, no...

Það er orðið soldið langt síðan ég setti eitthvað hérna inn. Það gerist nú alltaf öðru hvoru og allt í lagi með það. Núna er það þó útaf því að ég hef ekki getað setið mjög lengi í einu við tölvu, eða setið yfirleitt, eða staðið, eða gert neitt annað eiginlega...

Jú, ég hef komist nokkuð þokkalega á milli lækna, heilsugæslustöðva, nuddara og ráðgjafa í heilsufræðum...

...án árangurs.

Svo virðist vera sem ég sé komin með brjósklos. Ég hélt alltaf að svoleiðis nokkuð kæmi hægt og hægt og maður finndi til smátt og smátt meira og meira, en ekki bara einn daginn "bomms!!!"  bara stanslausar kvalir án fyrirvara og án stórra hléa á milli. Ég á að fara í sneiðmyndatöku eftir helgina og vona að þá komist niðurstaða í málið. Þá fæ ég staðfestingu á því hvort þetta er brjósklos eða eitthvað annað.

Þar sem það er markmið hjá mér að vera jákvæð, þá upplifi ég núna dálítla erfiðleika á því sviði. Það er einhvernveginn ekkert auðvelt að vera jákvæður þegar maður er með stanslausa verki.

En einhver sagði einhverntímann; "Allt sem ekki drepur þig, herðir þig!" og ég trúi því að nú sé verið að vinna í því að herða mig. Enda sennilega á því að verða algjört hörkutól...

...það hlýtur að vera jákvætt!?


Það er nebbla það

Já, þetta getur sossum vel verið. Að við mildumst með aldrinum, en ég var samt hissa þegar ég las fréttina og sá hvað það var sem við milduðumst með... Einmitt það sem ég þurfti að fá fullvissu mína um, ég er orðin svo hrikalega jákvæð eitthvað útí þær þarna þessar flottu sem ég hef hingað til öfundað alveg ótrúlega mikið.....

 

....lítið.

Kannski missti ég bara af þessari öfund minni eða neikvæðni útí fallegu konurnar?! Staðreyndin er að mér hefur bara alltaf þótt fallegar konur fallegar.

En fallegir karlmenn eru samt miklu fallegri en fallegar konur.


mbl.is Konur mildast með aldrinum
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

The story repeats itself...

Það er sagt að sagan fari alltaf í hringi og endurtaki sig. Tískan sem var einu sinni kemur aftur, nánast óbreytt, verður svo aftur hallærisleg, þangað til hún slær í gegn á ný. Tónlistin verður vinsæl aftur... Ég heyrði um daginn að við værum komin aftur á áttunda áratuginn. Verðbólgan væri í hæstu hæðum og ABBA og Vilhjálmur Vilhjálmsson væru vinsælustu böndin Wink . Tískan!?! Nei, ég hef engan séð með sítt að aftan og túperað hár LoL eða var það kannski níundi áratugurinn?!

Mér finnst samt eins og mín saga gangi í miklu hraðari hringi, tískan hjá mér breytist lítið, því ég nenni ekki að fylgjast með henni, ég fylgist líka lítið með tónlist fyrir utan það að hlusta bara á það sem mér finnst skemmtilegt og ABBA og Villi eru þar alveg ofarlega. En það er svona þetta daglega sem ég meina. Maður er aftur farinn að labba um með hausinn aftur á bak, horfandi á norðurljósin og aðdáun mín yfir því magnaða sköpunarverki lætur engan bilbug á sér finna. Fullt tungl; eða næstum því, stjörnur, svolítið frost - ahhh!!! Þett'er lífið!

Var á kirkjukórsæfingu áðan og það gekk þrælvel, en þangað fór ég gangandi og naut þess í botn að vera í þessu fallega vetrarveðri,- en mér finnst eins og ég hafi á svipuðum tíma í fyrra notið þess líka og jafnvel haft orð á því hér á þessari síðu Halo, þannig að kannski fer ég bara að gera copy/paste hérna... kannski ekki. Ég er bara hrifnæm og þetta finnst mér alltaf svo flott og hrífst af fegurðinni. Ég held næstum að ég gæti samið ljóð um þetta... Blush eða nei, annars... læt duga að hrífast.

Lái mér hver sem vill.


Ekkert

Stundum hefur maður ekkert að segja en langar samt að tala um eitthvað. Mig langar reyndar ekkert til að ræða öxlina sem virðist vera farin í hungurverkfall eða kyrrstöðumótmæli eða eitthvað... hún allavega virkar ekki.

Enn síður langar mig að tala um ástandið í þjóðfélaginu og þessa strákhvolpa sem hafa komið okkur á kaldan klaka með eiginhagsmunahyggju og græðgi.

Ég er reyndar alveg hrikalega ánægð með Barak Obama forseta Bandaríkjanna og óska honum alls hins besta þegar hann tekur við af Runnanum.

En ég er pínulítið svekkt yfir að hafa ekki komist á sauðfjárlitasýningu sem haldin var í sveitinni í dag, en litla sponsið mitt er lasið svo ég ákvað að vera heima.

 


Jólin

Einhvern veginn finnst mér allt of snemmt að hugsa um jólin, en samt sem áður þegar allur snjórinn fór og það bara rigndi og varð hrikalega dimmt, þá langaði mig í meira ljós og í kvöld sendi ég soninn eftir jólaseríunum inn í geymslu og við settum eina litla, sæta, rauða seríu í forstofuna. - Blush

Ég lít svo á að enn sem komið er sé þetta bara skraut - EKKI jólaskraut.


Gospel

Ég fór á gospel-tónleika í Selfosskirkju í gærkvöldi. Það var virkilega skemmtilegt. Hópurinn söng eins og englar lög eftir sálina, bítlana, bubba og svo algeng "halelúja" lög (reyndar ekki eitt einasta "halelúja" í þeim Woundering...) Aðalþemað var ást og kærleikur og maður var mjög hlýlega þenkjandi þegar labbað var út í svartnættið og lemjandi rigninguna, - samt er ég ekki frá því að rigningin hafi ekki verið eins blaut og myrkrið ekki eins svart eins og áður en ég labbaði inn...

Af hverju heitir þetta annars Gospel ???


Bíllinn minn

Ég fór með bílinn minn í dag og lét setja vetrardekkin undir. Var reyndar alveg óskaplega ánægð með það verk. En þegar ég kom að sækja hann var komin beygla í stuðarann sem ég hafði ekki tekið eftir áður.

Sá sem skipti um dekkin sór að þetta hefði ekki gerst hjá honum og ég get svosem ekki svarið fyrir að það sé rangt, þar sem ég horfi ekki röntgen-augum á bílinn minn öllum stundum, en beyglan er samt það áberandi að ég held ég hefði tekið eftir henni ef hún hefði verið komin áður. Þar fyrir utan var bíllinn að koma úr sprautun eftir annað óhapp bara síðasta miðvikudag og ég hef lítið keyrt hann síðan. Alltaf þegar ég legg í stæði, þá bakka ég ekki heldur legg inn í þau og það voru aldrei neinir bílar fyrir framan mig. Ekki svo ég geti munað eftir í það minnsta. Og hvað geri ég þá? Brosi bara og læt gera við beygluna á minn kostnað???

Þetta er sárt! Crying

 


Leikhús og dans

Ég fór í leikhús á föstudaginn. Sá Fló á skinni. Það var alveg ferlega fyndið. Vel leikið líka. Ég rúllaði alveg af hlátri. Það var samt líka svolítið fyndið að fylgjast með salnum Cool.

Leikritið snýst um misskilning og vandræðagang honum fylgjandi og því hálfgerð endaleysa. Það þarf stundum ákveðið hugarfar til að fara að sjá slíkt leikrit. Allavega tekur maður því eins og það er og setur sig í ákveðnar stellingar, en sumir höfðu greinilega ekki gert það áður en þeir fóru. Einn fyrir framan mig var alvarlegur allan tímann. Stökk ekki bros. Ég vorkenndi þeim sem var með honum, því þann einstakling langaði til að brosa en geðillska sessunautarins dró allan mátt úr honum. En ég skemmti mér samt einna best yfir þeim sem sat fyrir aftan mig, því rétt fyrir hlé bárust mjúkar hrotur yfir öxlina á mér. Ég ætlaði varla að trúa þessu, því háfaðinn frá hlátrasköllunum í salnum voru svo mikil stundum að ég heyrði ekki hvað leikararnir sögðu. En jú, maðurinn hraut.

Eftir hlé, byrjaði hann aftur að hrjóta. - Geri aðrir betur. Wink

Við borðuðum á Kringlukránni áður en leiksýning hófst og þar fékk ég kengúrukjöt í fyrsta skipti.
- Það var nammigott.

Það var síðan ákveðið að taka skemmtanalífið með stæl þessa helgina, þá loksins var farið til þess og við vinkonurnar fórum á Players á laugardagskvöldið. Þar var hljómsveit sem heitir Dresscodes að spila. Ég vissi ekki að hún væri til, en inniheldur Davíð Smára sem var einu sinni í idol-keppninni. Kannski kannast einhverjir við hana þó ég geri það ekki. Það er sko ekki að marka,- fylgist ekki  með í þessum bransa.
Hún var fanta-góð. Og við dönsuðum alveg stanslaust í 3 klukkutíma,- líka í hléinu!
Geggjað stuð.


Hver bað um þennan snjó???

Halló!!! Það er sko október ennþá. Reyndar man ég að snjóflóðin fyrir vestan forðum voru í október, þannig að þetta er ekki einsdæmi og nú er aftur varað við snjóflóðum á norðanverðum Vestfjörðum.

En mér er alveg sama þó svona hafi einhvern tímann verið áður, ég vil ekki snjó svona snemma og ég er frekar umburðarlynd gagnvart veðri. Læt ekkert pirra mig og finnst allt veður gott nema þegar norðanáttin næðir í frosti, það þoli ég ekki. Og svo svona ótímabæran snjó.

Hvað á maður að gera eiginlega? - fara að skrifa jólakortin???


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Mars 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30
31            

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (29.3.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband