Fleiri gullkorn

Ykkur finnst það kannski ekkert fyndið og kannski hafið þið heyrt það annarsstaðar, en mér fannst alveg bráðsniðugt þegar sonur minn kom og sagði mér að Georg Runni væri í sjónvarpinu.

Georg Runni??? segi ég og varð eitt spurningamerki - kannaðist ekkert við þann þátt.

Já, forsetinn, heitir hann ekki George Bush? LoL


Háralitur

Dóttir mín var með gest í morgun sem er 3 ára eins og hún er að verða í næstu viku - partý verður haldið á morgun henni til heiðurs.
Við sátum og borðuðum ristað brauð þegar hún spyr hvernig hárið mitt sé á litinn, ég segi að ég sé dökkhærð, vinurinn segist þá vera með ljóst hár.
Þá sagði hún: "Ég er með æðislegt hár!"

Tekið hef ég hvolpa tvo...


Klukk

Ég var klukkuð af Hilmari pabba hennar Ástrósar sem er vinkona Önnu Guðrúnar dóttur minnar. Ég tek sko klukkinu, en það þýðir að ég á að svara þessum spurningum hér fyrir neðan.... Geri það, en veit varla hverja ég á að klukka í staðinn sé til þegar ég er búin að svara spurningunum.

1. Fjögur störf sem ég hef unnið:

Tamningamaður - víða

Verslunarmaður í fatadeild - Vöruhúsi Kaupfélags Árnesinga Selfossi

Réttarstarfsmaður - í Sauðfjárrétt sláturhússins á Selfossi (SS).

Gjaldkeri - Sýslumannsins á Suðurlandi

 

2.Fjórar bíómyndir sem ég held uppá: (fínt að nota sér Hilmars...)


Englar alheimsins  2000 - Friðrik Þór Friðriksson/Einar Már Guðmundsson

Forrest Gump 1994 - Með Tom Hanks

Dalalíf - Þráinn Bertelsson

Magnús - Þráinn Bertelsson

 

3.Fjórir staðir sem ég hef átt heima á:

Hreiðurborg í Flóa (Árnessýslu)

Heimavistin á Hólum í Hjaltadal (...telst það ekki með...)

Birkigrund á Selfossi

Laugaland í Holtum 

 

4. Fjórir sjónvarpsþættir sem ég horfi  helst á: 


Fréttir og veður

Náttúrulífs og dýralífsþættir

Samantha who?

Barnatíminn Wink

 

5.Fjórir staðir sem ég hef heimsótt í fríum:

Danmörk 2004

Hornstrandir 2007

Fljótsdalshérað 2008

Patreksfjörður 2008

                                            

6. Fjórar síður sem ég heimsæki daglega (reglulega):

mbl.is 

laugaland.is

blog.is

skolavefurinn

                        

7. Fjórir réttir sem mér finnst góðir:

 

Plokkfiskur með rúgbrauði númer eitt tvö og þrjú

Lambafille með sósu, salati og kartöflum

Sjávarréttasúpan (mín Blush)

Kjötsúpa

                                                                                            

                                                                                                                                   

8.Fjórar bækur sem ég les amk. árlega:

Les engar bækur árlega 

Það sem ég les amk. árlega er Mogginn, Bændablaðið, Dagskráin og Glugginn   

 

Ég veit hverja ég klukka; Guðbjörg Odds, Hallkri, Lói og Vigga. Viljiði svara þessum spurningum?


Golf

Ég fór fram hjá golfvelli í dag. Fólk gekk þar um með golfkylfurnar sínar, golfkylfupokana og naut þess að vera úti í góðum leik. Utan við einn völlinn voru hjón með tvö börn og berjafötu,- sennilega að hvíla sig á kylfunum.

Ég kann sjálf ekki golf, en hef farið nokkrum sinnum í mini-golf og finnst það bara gaman - telst samt alls ekki góð í þeirri íþrótt og hef stundum velt fyrir mér tilganginum við að setja þessa litlu kúlu ofan í gat. Samt er svo spennandi að sjá hversu nálægt maður hittir, hversu oft maður klúðrar og það er ótrúlega sælt þegar maður nær holu í höggi (meira að segja í mini-golfi).

Maður er farinn að mæta oft bílum með golfbíl á kerru í eftirdragi. Fyrst hélt ég að einhver golfvallareigandi væri að fara með bíl á völlinn til að leigja út, en svo sagði einhver fróðari en ég mér frá því að þetta væru þeir sem eru að spila. Þeir keyra á milli golfvalla með bílinn sinn og nota hann til að keyra á milli hola.
Mér finnst þetta snilld - þetta er jafn mikil snilld og að setja hesta á kerru og keyra á einhvern fallegan stað þar sem mann langar á bak, taka hestana af kerrunni, leggja á og ríða útí góða veðrið,- ég skil alveg svona fólk. Smile


Réttir

Fór í réttir í dag... Missti samt eiginlega af réttunum sjálfum, en náði að fylgja fjárhóp áleiðis heim til sín. Önnur dóttirin sofandi í bílnum hjá mér, hin á hestbaki. Sonurinn fór í aðrar réttir.
Það er ekki af því að við séum svona ósamrýmd... heldur fór hann í gær ríðandi á móti safninu sem fer í Hrunaréttir og fór í þær snemma í morgun, en við hin fórum í vinnu í morgun og komumst í Skaftholtsréttir sem eru aðeins seinna að deginum. Þannig fengu allir smá smakk af fjárbúskapnum á þessum dýrðardegi.

Og borðuðum ketsúpu á fleiri en einum bæ LoLPinch


Túlípanar og önnur fræ...

Ég kupti mér túlípanalauka í Bónus í fyrradag og tróð þeim ofan í moldarbeð hér útí garði. Á nú von á að fá röndótta túlípana upp með vorinu og þykir það ekki slæmt.

En svo tíndi ég líka fræ af tré sem ég held að sé hengibirki (reyndar ekki í Bónus...), en gæti vel verið venjulegt birkitré sem hengdi greinarnar í depurð sinni yfir því að sumrinu sé að ljúka. Hvort heldur sem er, þá týndi ég nokkra fræbelgi og fór með heim til mín og velti því fyrir mér hvernig maður kemur til birkitrjám. Ég ætlaði að fara að leita mér upplýsinga hjá nærtækum skógræktarfræðingum þegar mér barst tölvupóstur. Smile 
Þar stóð að Skógræktarfélag Reykjavíkur býður grunnskólabörnum í Reykjavík uppá fjallgöngu og frætínslu. Það á semsagt að ganga um við Esjuna, týna þar birkifræ, fara með þau í moldarbeð austan við Mógilsá og dreifa þeim þar,- og með vorinu eiga að spretta þar hin fegurstu tré...

Það er ekki merkilegt verk að rækta birkiskóg Happy, nú bara dreifi ég þessum fræjum mínum hér útí mold og vona að ég villist ekki á þeim og arfanum næsta sumar og svo planta ég þeim á gróðursælan stað þegar ég er orðin viss um að ég sé með tré í höndunum en ekki eitthvað annað. Hvað getur maður haft það betra? Og albest að fá upplýsingarnar svona í pósti bara með því að hugsa um þær... Grin.


Síðasta ferð sumarsins...

... er að baki. Smile Kannski!?! Jú, er það ekki,- er ekki örugglega komið haust allavega. Þannig að ef ég flækist eitthvað meira, þá er það ekki sumarferð, heldur haustferð.
Ég var sumsé að koma úr Svarfaðardalnum í gærkvöldi. Með nokkur kíló af berjum, bæði bláum og svörtum, norðlenskt loft í lungunum og endurnærð eftir samveru með góðum vinum.

Það er alltaf gaman og gott að koma í Svarfaðardalinn. Hann er fallegur og þar er tekið vel á móti mér,- eins og höfðingi sé á ferð Happy og ég upplifi mig sem slíkan Joyful.
Við lentum í göngum,- ekki mjög fjármörgum, en göngum samt og náðum að draga nokkrar skjátur í sinn dilk. Ég fór í fyrirstöðu með barnaskarann og við röðuðum okkur í berjabrekkurnar á meðan við biðum eftir safninu. Mér finnst samt varla hægt að kalla þetta "safn" en læt mig hafa það fyrst að mér var tekið sem höfðingja (telst nú varla vera það heldur... tíhíhí...)
Kindur eru allavega alltaf kindur og okkur þótti þetta feikn gaman. Ég ætlaði allavega varla að ná yngsta meðlim fjölskyldunnar úr réttunum og þó hafði hún verið hlaupin niður þó nokkrum sinnum af rollum og hrútum þegar þar var komið sögu.

Nú er ég búin að sulta úr krækiberjunum og frysta helminginn af bláberjunum með sykri og ætla að eiga til vetrarins með rjóma útá nammi nammi namm, en hinn helminginn borða ég strax og sulta kannski smá, - ef ég tími því Pinch.


Veðurfarið

Í síðustu viku rifnuðu himnarnir og vatnið rann úr þeim eins og úr yfirfullri fötu. Mér dettur í hug Aðalríkur höfðingi í Gaulverjabæ sem óttaðist það eytt að himnarnir myndu hrynja Frown. Ég reyndar óttaðist það ekki, en þetta var samt ótrúlegt vatnsveður og þeim í skýjunum gekk illa að staga í götin þó þeir reyndu. Öðru hvoru stytti upp eða lekinn minnkaði, en svo rifnaði saumurinn aftur og vatnið rann sem aldrei fyrr.

Nú hafa þeir hins vegar náð árangri við erfiðið og öll göt himinsins hafa verið stagbætt. Hér skín sólin og þessi ótrúlega fallega morgunbirta ríkir. Haustlitirnir hafa tekið völdin og náttúran er einhvernveginn að sligast undan ávöxtum sínum,- berjum, grösum, laufblöðum. Enda mun hún bráðlega gefa eftir og fella bæði lauf og grös.

Ég þurfti að skjótast á Hellu áðan og ég veit ekkert fallegra en fjöllin hér í austurátt þegar sólin skín eins og hún gerir núna. En þegar maður kemur að Hellu í svona veðri, þá getur maður ekki annað en dáðst að staðnum. Rangá rann alveg lygn, glitraði spegilslétt í sólinni eins og silfurborði. Grasið slútti ofan í ána og nokkur tré spegluðust í vatninu, ekki eitt laufblað hreyfðist. Manni fannst húsin kúra inná milli trjánna, þegjandi og anda hljóðlega, bíðandi þess að fólkið í þeim vaknaði og hæfi sín daglegu störf. Tveir ferðalangar sátu fyrir utan sjoppuna og endurröðuðu í bakpokann sinn og nokkrir enskumælandi túristar gengu um bílaplanið og reyndu að festa dýrðina á ljósmynd.

Sjáið þið þetta ekki fyrir ykkur? Kannski ætti ég að snúa mér að því að skrifa bók... ?!? hmmm.Woundering


Handboltaskór

Sonur minn æfir handbolta. Það hefur víst komið fram áður. Hann hefur mikinn áhuga og gengur mjög vel.

En hann stækkar alveg skelfilega hratt og fæturnir virðast stækka hraðar en allt annað og undanfarin ár hef ég þurft að kaupa allt uppí 3 pör af skóm yfir veturinn fyrir íþróttaiðkanir. Þar hjálpast að að ég hef keypt ódýra skó (af því hann vex svo hratt uppúr þeim) , hann vex upp úr þeim og hann slítur þeim illa (líka af því að þeir eru ódýrir).

Nú ákvað ég að kaupa almennilega handboltaskó á drenginn og fór í skóbúð bæjarins. Mér var tjáð að þar fengjust ekki handboltaskór undir 15.000,- kalli, en þá yrði ég að kaupa til að styðja almennilega við fótinn á honum þegar hann er í handboltaleik því álagið á fótinn sé allt annað en í öðrum íþróttum. Ég hugsaði með skelfingu til allra ódýru skóparanna sem ég hef keypt í gegnum tíðina og hvað ég sé búin að gera drengnum illt að hlaupa um á þeim. Hvað um það passlega skó fékk hann ekki í þessari búð og við fórum í þá næstu.
Þar fékk ég skó á hann sem hentuðu, líkuðu og pössuðu og kostuðu 12.990,- Puma skór og ef ég man rétt, þá er það ágætis merki líka. Þannig að ég er sátt.

En ég keypti skó númer 44 á drenginn sem varð 12 ára í janúar síðastliðnum og mér líður eins og öll fjölskyldan komist fyrir í skónum,- ef ekki stærðarinnar vegna, þá að minnsta kosti fyrir verðið.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Maí 2024
S M Þ M F F L
      1 2 3 4
5 6 7 8 9 10 11
12 13 14 15 16 17 18
19 20 21 22 23 24 25
26 27 28 29 30 31  

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (15.5.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 12
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 12
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband