Hljóðfæraleikarar

Mér var sagt það, þegar ég hafði sungið; Hér sérðu Línu Langsokk, tsjalahei, tsjalahó, tsjalahopsasa... dögum saman, að sennilega ætti ég að gera eitthvað annað en að syngja fyrst ég ætti svona erfitt með að halda lagi. Þarna var farið aðeins fínna í það að segja mér að ég væri fölsk heldur en systkini mín höfðu gert dagana á undan, þegar þau sögðu háum rómi hvert á eftir öðru: "Þegiðu Hulda, þú getur ekkert sungið!" Þá var ég 6 ára.

Þessi fínt orðaða setning hafði þó miklu meiri áhrif en hin orðin og varð til þess að ég grjóthætti að syngja þegar aðrir heyrðu til í mörg ár og var alveg sannfærð um að þetta væri satt. - Ég gæti ekki sungið og þá væri betra að sleppa því.

Með tíð og tíma komst ég að því að ég gæti nú kannski alveg gólað skammlaust.

Annað sem ég hafði mjög gaman af í æsku og það var að spila á orgel sem var til heima. Ég lærði Gamla Nóa utan að, Allt í grænum sjó, og Veistu hvað ljóminn er ljómandi góður. (Magnað tónverk Joyful) Systir mín 3 árum eldri fékk að læra á orgelið, en það var ekki talin þörf á að fleiri meðlimir fjölskyldunnar færu í tónlistarskóla og fullvíst að hún gæti bara kennt mér.

Það var reynt... W00t

Ég sat sveitt og samviskusöm og gerði fingraæfingar sem ég skildi ekki og hún sat við hlið mér, reyndi að segja mér til og gargaði öðru hvoru yfir því hvað ég væri heimsk og treg og gæti ekki látið puttana tolla á réttum nótum... - Mig minnir að ég hafi fengið tvær kennslustundir hjá henni...

Ég greip þá til þess örþrifaráðs að setja UHU-límklessur á nóturnar þar sem puttarnir áttu að vera og vita hvort fingurnir tylldu ekki á sínum stað. Bandit Nei! ... - Virkaði ekki! En límklessurnar eru ennþá á orgelinu og hafa aldrei náðst af. - UHU- heldur sko!

Ég er alveg ákveðin í því að læra á fiðlu á elliheimilinu! - og ég ætla að æfa mig vel og lengi Halo, þá verð ég fullgild á hörpuna hinu megin. Ef maður hefur þá einhvern tíma í svoleiðis þar.


Öfund

Mér barst það til eyrna í gær að það sem af er þessu ári, þá hafi bílasalar selt 400 nýja Toyota Land Cruiser jeppa og 50 nýja Range Rover jeppa. Shocking VÁ!! Ég veit þeir kosta öðru hvoru megin við einn tug milljóna króna (stykkið), þó ég viti ekki mikið meira um þá... Í fréttunum áðan var farið á bílasölu og bílar sem kostuðu 25 milljónir íslenskra króna skoðaðir. Maðurinn sem fylgdi bílunum til landsins hafði aldrei upplifað það fyrr að svona fámenn þjóð keypti svona mikið af svona dýrum lúxusbílum, eins og það var orðað. Hann var hins vegar stoltur yfir að vera þáttakandi í þessu Cool - ég er ekki hissa,- þetta er eitthvað til að segja barnabörnunum frá.

Ég hef alltaf átt óskaplega auðvelt með að gleðjast með öðrum þegar þeim gengur vel - og það geri ég svo sannarlega líka núna. Smile Mikið óskaplega er ég ánægð með að þessum mönnum og konum skuli vera fært að eiga og aka á svona dýrum bílum um götur landsins,- bara innilega njótið!

Ég er hins vegar miklu ánægðari með að ég skuli ekki finna hjá mér minnsta vott af þörf fyrir að hafa svona farartæki undir rassinum. Ég á mjög svo þægilegan Skoda Octavia sem kemst allt sem ég ætla honum. Kannski myndi ég ætla honum meira ef ég héldi að hann kæmist það, en ég hef ekki þörf fyrir það. Ég get lagt honum hvar sem er og ég er ekkert mjög taugaveikluð yfir því að einhver rekist utan í hann eða rispi hann ponsulítið og ég held að hann mengi ekkert svakalega mikið.

Ég verð samt að hafa orð á því að bíllinn minn er ekki með sjálfvirkum hreinsibúnaði,- hvorki að utan né innan og mér finnst það galli. Ég væri alveg til í að borga örlítið meira fyrir bíl ef svoleiðis fylgdi, því mér finnst leiðinlegt að þrífa og bóna bíla,- voða gaman þegar ég er búin að því, en... Wink

Ætli það fylgi þessum bílum sem kostuðu 20 millurnar,- eða er aukabúnaðurinn fyrst og fremst falinn í kampavínskælinum í baksætinu? FootinMouth


Tíminn

Var að ræða við einhvern um daginn hvað tíminn liði mishratt og virtist þjóta áfram eftir að maður hætti að vera krakki... (heppin ég að vera svona mikið barn ennþá Wink). En svo væri það þannig að þegar maður væri að bíða eftir einhverju, þá færi tíminn að líða hægar. Svo kæmi að því að það sem maður bíður eftir kemur, líður örskot framhjá og er síðan horfið í tímans rás.

Þá rifjaðist það upp fyrir mér að ég heyrði einhverntímann þá speki að: "...allir væru í endalausri leit að hamingjunni. En hvað er hamingjan? Er leitin að hamingjunni kannski hamingjan?"

Ég staldraði við og hugsaði um að sameina þetta tvennt. Leitina að hamingjunni og að láta tímann líða hægar,- eða hraðar, eftir því hvort við viljum.

Eins og t.d. fyrir jólin. Aðventan er notuð í að bíða eftir jólunum og undirbúa jólin. Ég er voðalegt jólabarn og átti geðveikt góð jól núna síðast. En aðventan var líka geggjuð og ég notaði hana í allskonar undirbúning fyrir jólin, samveru með góðum vinum, fjölskyldunni, föndur og bakstur... (...já... helv...baksturinnGetLost... ókey. kannski var ekki allt geggjað...Gasp)

En það sem ég held og hef orðað áður er að ef við njótum tímans sem við höfum eða höfum ekki, einbeitum okkur að því sem við erum að gera hverju sinni. Hættum að hugsa um allt hitt sem er eftir að gera og vinnum í verkefninu sem við erum með af fullum hug, getur þá ekki verið að tíminn líði á þeim hraða sem við viljum að hann líði? Og fullur af hamingju líka?

Ef við erum að bíða eftir að eitthvað gerist, njótum þá biðarinnar! Hún getur líka verið spennandi, - alveg eins og þegar við biðum eftir jólunum sem börn (og ég geri ennþá...) Kannski er hún bara miklu meira spennandi en það sem við bíðum eftir, hver veit.

Hvernig er þetta annars með páskana? Af hverju eru svona fáir með páskastress, en margir með jólastress? Fylgir páskastress bara fermingum og heitir þá fermingarstress? Fara bara allir á skíði (nema ég) um páskana og það þarf ekkert að stressa sig fyrir það? Eru páskarnir eitthvað minni hátíð en jólin?

Ég er annars á fullu að undirbúa árshátíð (afmælisárshátíð) skólans sem ég vinn við og er hundstressuð, með alltof lítinn tíma og er akkúrat þessvegna að koma þessu á blað! Eigingirnin og eiginhagsmunasemin í fyrirrúmi!!! Hugsa bara um sjálfa mig... Þetta er nýja slökunaraðferðin mín... Að skrifa um hvernig maður geti notið stressandi undirbúnings fyrir eitthvað LoL!!!

Njótið með mér!


Konudagurinn

Það er komið kvöld og ég bíð enn eftir því að fá blómvönd... Hmmm,- hvusslass kæruleysi er þetta að gefa mér engin blóm??? - Systir mín fékk tvo blómvendi,- að vísu komu skátarnir heim að dyrum hjá henni og það var ekki hægt annað en kaupa blómvönd handa henni, en ég meina,- þetta mætti nú vera minna og jafnara,- af hverju fær hún tvo en ég engann? Frown

Annars var ég á þorrablóti í gær,- borðaði yfir mig náttúrulega, þó svo að ég geti ekki komið ofan í mig súrum mat, en dansaði yfir mig líka,- mikið svakalega var gaman. Ég held samt að þetta hafi ekki náð að vera á þorranum, kláraðist hann ekki á föstudaginn? Eða var þorraþrællinn í gær?       Ég, þessi þjóðlegi einstaklingur er nú bara ekki alveg nógu handviss á þessu Blush.

En hvað svosem því viðkemur, þá er Góan byrjuð,- og ný vika líka. - Og búið að velja Júróvisjón-lag. Veit ekki hvað ég á að segja um það hef ekki heyrt það frá upphafi til enda til að geta dæmt það og fylgdist ekki með þessari langloku sem Laugardagslögin voru,- eða "Laugardalslaugin" eins og þeir sögðu í spaugstofunni. Þetta var jú allt samsæri og bara fimmtudagslög og alls ekki í beinni.Wink


snjór eða regn

Skrítið hvað það er miklu auðveldara að tjá sig um snjókomu heldur en rigningu Errm. Getur verið að maður sé léttlyndari þegar snjóar heldur en þegar það rignir??? - tja...

Það er allavega búið að rigna oggulítið núna undanfarna daga. Allir lækir og ár eru mórauðir, nema Rauði-Lækur, hann er fjólublár,- hann er jú alla aðra daga rauður... tíhíhí Joyful.

Skurðir eru búnir að vera grænir og gulir með fljótandi snjóbunkum ofan á. Manni verður hálf illa við að hugsa til hestanna sem stundum eru nálægt svona skurðum og maður vonar að þeir lendi ekki ofan í þeim,- ábyggilega ekki gott að klóra sig uppúr þeim núna.

Hvað haldiði svo,- það fór náttúrulega að snjóa aftur,- núna semsagt Smile. Og það birti um leið úti. Hafið þið annars tekið eftir því að það er orðið bjart um kvöldmatarleytið,- það er þó ekki að styttast í vorið eina ferðina enn???

Always look at the bright side of life!!! Wink


Hallú...

Æ... mig langar ekki að tjá mig um Villa greyið, ríkissjónvarpið eða neitt af því sem er í fréttum, - ekki á þeim nótunum allavega.

63 milljarða tap FL-group er mér ofvaxið,- skil ekki svona háar tölur... Enda kenni ég stærðfræði á yngsta stigi og þar erum við að vinna með mun smærri talnagildi.

Strákakjánarnir sem rugluðust á stúlku og níræðri konu eiga ekki mína samúð,- ekki heldur fyrir að vera svona óglöggir á tölur. Kannski þá helst fyrir að "lenda" í því að eiga sökótt við stúlkur, sama á hvaða aldri þær eru.

En mér finnst alveg dásamlegt hvað það hefur hlýnað úti og hvað það er orðið bjart fram eftir á kvöldin og þá ekki síst að vorlaukarnir séu farnir að blómstra í Danmörku. Það gerir manni svo hlýtt í geði að það skuli vera farið að grænka í Danaveldi á meðan við mokum skaflana hérna heima á Fróni Smile... 

- og það má alls ekki lesa neina kaldhæðni útúr þessari athugasemd hjá mér!!!

 

... var í smá blogg-leti. Kannski ég reyni að taka mig á þar,- eða bara segja formlega upp sem bloggari,- það má líka... Woundering


Sólarköff

Ég held ég hafi verið 18 ára þegar ég heyrði fyrst talað um sólarkaffi og af hverju það var haldið. Ég man að mér fannst það alveg magnað að sólin skyldi ekki sjást allsstaðar á landinu allt árið um kring. En það er kannski ekkert skrítið, þar sem ég er alin upp í Flóanum og hann er nú flatasti hluti landsins að Landeyjunum meðtöldum. Þar sést sólin alla daga ársins nema skýin hylji hana og það verð ég að segja að stundum óskaði maður þess að það væri nú eins og eitt fjall þarna einhversstaðar. Ekki bara til að geta prílað í því eða til að horfa á, enda er fjallasýnin í Flóanum einstök að fjölbreytileika. - Þau eru bara soldið langt í burtu... Cool

En þegar maður fór að keyra og sinustráin náðu ekki að hylja sólina þar sem hún skreið rétt uppfyrir sjóndeildarhringinn, skein beint í augun á manni þannig að maður sá hvorki lönd né strönd, þá öfundaði maður þá sem höfðu fjöllin örlítið nær sér.

Mér varð hugsað til þessa þegar sólin skein í augun á mér í lok síðustu viku við aksturinn og ég heyrði af sólarkaffi bæði á Ísafirði og Siglufirði... Smile

Til hamingju með að sjá til sólar félagar.


smáfuglarnir

Ég hef oft velt því fyrir mér hvernig snjótittlingarnir vita að maður hefur hent einhverju út fyrir þá,- ætli þeir fljúgi bara reglulega hring yfir og athugi málið? Finna þeir lyktina? Er njósnari sem flýgur og lætur hina vita?

Allavega er það alltaf þannig að um leið og ég er komin út, þá eru þeir mættir. Og þeir eru greinilega soldið svangir, því þeir eru farnir að setjast niður og byrja að borða, bara einn til tvo metra frá mér. Kannski eru þeir farnir að þekkja mig! Þeir eru alveg óskaplega fallegir, mjúkir og sætir þessi litlu skinn og virðast vera mjög ánægðir með bitann sem þeir fá Smile.

Krökkunum finnst þetta líka skemmtilegt og þeir fá mat oft á dag á mínu heimili.


Andlaus

Ég held svei mér þá að það sem oftast hefur rúmast fyrir í hausnum á mér sé fokið burt með vindum helgarinnar - ég hef ekkert að segja hérna...

en...

Ég gerðist svo fræg að sjá Ladda í gær,- ég veit! - hallærislega seint, bráðum tvö ár síðan hann byrjaði að sýna þetta! Halló! Ég bý útá landi... svo var ég líka alltaf að bíða eftir að það yrði sæmilegt veður fyrir Reykjavíkurferð... Cool

En ég verð að segja að sýningin er bara vel fersk og virtist enginn leiði vera kominn í manninn. Hann var greinilega með nýja brandara í bland við hina og sýningin öll svo skemmtilega samansett að maður hló og hló og hló og hló og hló og hló. Maðurinn er snillingur! ...og reyndar allir sem voru þarna með honum. Íssalinn var t.d. mjög sterkur.

En svo varð ég veðurteppt í borginni, því það var náttúrulega búið að loka Hellisheiði þegar ég ætlaði heim... Frown

... var ég búin að nefna það að ég hló??? LoL


Hvað er að gerast í Grindavík?

Fyrst fá þeir einir brjálað veður sem er hvergi neins staðar í nálægum bæjarfélögum og nú nötrar allt undir þeim...

Ég hélt að frændur mínir þarna suður með sjó væri hið ágætasta fólk og þyrfti ekkert að hrista þá til. FootinMouth


mbl.is Ónotaleg tilfinning
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband