22.1.2008 | 17:36
Ástir Pílu
Hún Píla er nú alveg óskaplega falleg tík og nú hefur hún náð að heilla hundinn hér á næsta bæ,- mér til mikillar armæðu .
Ég ætla sko EKKI að fá hvolpa eftir páskana, þannig að hún fer út í strangri lögreglufylgd og má ekki víkja frá mér.
Það er ótrúleg þrjóska sem grípur um sig þegar hormónarnir eru á svona flugi og þráhyggjan í hundinum er yfirgengileg. Þessi ágæti hundur, sem er reyndar mjög huggulegur Íslensdingur og virðist ekki vera svona stanslaust kjaftandi kjáni eins og þeir eru nú sumir, bíður fyrir utan húsið allan sólarhringinn og liggur helst við eldhúsgluggann og horfir inn og ýlfrar allur og skelfur ef Pílu bregður fyrir, en setur niður rófuna og læðist nokkra metra í burtu ef hann sér mig.
Hann er alveg óskaplega mikið krútt reyndar þar sem hann liggur þarna úti og bíður eftir að Píla komi út.
Ég var annars spurð hvort ég vildi halda henni undir annan border collie hér í sveitinni sem eigandann langaði að yngja upp. En ég átti mjög gott samtal um það við son minn (hann er bráðum 12 ára og langar alveg að fá hvolpa). Niðurstaðan kom frá honum; "Ef við ætlum ekki að eiga neinn hvolpinn sjálf, þá held ég að það sé nú langbest að sleppa því!"
- og það er niðurstaðan!
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
21.1.2008 | 18:18
Menningarferð
Á laugardaginn fórum við fjórar saman að sjá leikritið Útsýni sem er sýnt í Möguleikhúsinu. Fórum meira að segja á frumsýninguna,- okkur var samt ekki boðið í frumsýningarpartýið - ég fatta það ekki alveg... .
En verkið er mjög skemmtilegt og ég mæli með því að þið kíkið á það. Segi ekki meir til að eyðileggja ekki stemninguna fyrir þeim sem ekki hafa séð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 18:22 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
17.1.2008 | 14:54
...og snjóar...
Það snjóar sko ennþá hér í Rangárþingi og magnið á jörðinni er alveg geggjað fyrir skíðaáhugafólk, snjóhúsabyggjara og snjókarlasmiði. Ég tilheyri ekki fyrsta hópnum , hef einu sinni farið á skíði, með lélegri útkomu og hef ekki reynt aftur, er samt sannfærð um að þetta sé mjög gaman.
En ég mokaði bílinn minn út í gær ,- að hluta til reyndar. - Það var soldill snjór á honum þegar ég byrjaði, en ég fann hann samt, settist inn og bakkaði út úr stæðinu,
og stæðið svona. en það kannski segir lítið um hvernig hér lítur út annars almennt. - Mér finnst þetta skemmtileg upprifjun á því á hvaða landi við búum .
Svo gerðu krakkarnir snjóhús,- myndin er því miður ekki alveg nógu góð.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:59 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
16.1.2008 | 11:09
Hugleiðingar
Það snjóar ennþá og ég sit hér fullkomlega andlaus yfir leikritasamningi. Þarf að fara til Reykjavíkur, en er hér um bil búin að blása það af vegna þess að veðurstofan spáir roki eftir hádegið og mér sýnist að það sé eitthvað smávegis til af snjó til að blása útum Brand og Runólf og búa til skafla sem hvorki ég né skodinn minn ráðum við .
Er annars ekki einhver þarna úti sem getur sent mér straum svo að andinn komi yfir mig með þetta leikrit sem ég er að reyna að hnoða saman,- að eigin ósk, ég tek það fram... .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
15.1.2008 | 13:26
Veðrið
Vonda veðrið sem var bara í Grindavík í gær, syni mínum til ómældrar óánægju er komið lengra inná landið. Hér snjóar og snjóar!
Við fórum til Reykjavíkur í gær og leit út fyrir að veðrið væri nokkuð slæmt þegar við fórum yfir Hellisheiði, en nei, bara brunablíða í höfuðstaðnum. Sonurinn var ekki úrkula vonar um að það gæti nú kannski verið snjókoma hér fyrir austan, af því að við erum svo nálægt fjöllunum, en nei! við mættum aðeins þremur snjókornum á Landveginum á heimleiðinni og hann fór í þá mestu fýlu sem hann hefur tekið lengi.
Hann var samt vakinn með gleðifréttum, því það þurfti að moka frá útidyrunum í morgun og hann tók það að sér,- rétt gaf sér tíma til að fara í buxurnar!!!
- honum finnst gaman í snjó ef það skyldi fara eitthvað á milli mála!!!
En það gekk ekki eins vel að koma öllum öðrum í skólann og lengi vel var ég bara með tvo nemendur í morgun,- ég hugsa að sonurinn hefði alveg viljað hafa þurft að ferðast með skólabíl í morgun
Bloggar | Breytt s.d. kl. 17:00 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
13.1.2008 | 18:56
Kvikmyndirnar
Kvikmyndirnar á föstudaginn voru alveg frábærar. Tvær yngri myndir (1992 og 1997) voru með hljóði og svona í léttari kantinum. Þær er hægt að kaupa hjá fjallskilanefnd. Hinar eldri voru hljóðlausar og voru upplýsingar um staðhætti og fólkið sem sást gefnar jafnóðum í hátalarkerfi hússins. Kristinn í Skarði talaði að vísu eins og allir í salnum hefðu farið með honum í amk 4 fjallferðir ef ekki fleiri og var maður ekki alltaf með á nótunum. En flestir aðrir sem voru meira kunnugir en ég voru það og það verður að segjast að fólk hafði áhuga á þessu, því þarna var samankominn hópur af fólki á öllum aldri og ekki bara Rangæingar.
Gaman að sjá hversu margir sýndu þessu áhuga og komu á staðinn.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
9.1.2008 | 21:08
Úr fréttunum.
http://dagskra.ruv.is/streaming/sjonvarpid/?file=4397800/12
Mætti reyndar Guðbjörgu einu sinni með þetta flykki í gönguferð og þá dró hann hana líka... Hún var ekki á snjóþotu .
En þetta hlýtur að vera gaman. ííha.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
9.1.2008 | 20:51
Landmannaafréttur
Ef einhver (sem slysast hér inn ) skyldi nú hafa áhuga á því að skoða 30 ára kvikmynd sem tekin var á Landmannaafrétti og aðrar 15 ára gamlar myndir, þá verður fjallskilanefnd Landmannaafréttar með sýningu á þeim á föstudaginn kl. 20.30 hér á Laugalandi.
Mér líst svo á að þetta geti verið ansi skemmtilegt fyrir fólk sem hefur áhuga á landinu okkar og sögu þjóðarinnar og hinnar mögnuðu skepnu; sauðkindarinnar . Þannig að ég ákvað að láta það berast.
...
Hins vegar finnst mér auglýsingin svolítið villandi, en þar eru gamlir fjallmenn og "...makar þeirra..." hvattir til að koma. Ég velti því aðeins fyrir mér hvort mér verði þá ekki hleypt inn þar sem ég er hvorki gamall fjallmaður, né maki... - En ætli fjallmenn af Flóamannaafrétti fái ekki inngöngu ef þeir fara leynt. Ég er allavega búin að bjóða tveimur vönum fjallmönnum af Hreppamannaafrétti með mér og því ættum við að teljast gjaldgeng,- eða ég vona það - þau eru allavega bæði makar.
Bloggar | Breytt s.d. kl. 21:10 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
8.1.2008 | 21:20
Liðið ár
Árið 2007 var gott en líka erfitt.
Það sem stendur uppúr er Hornstrandaferðin um verslunarmannahelgina. Farin á vegum KÍ með 38 ókunnugum manneskjum og 3 sem ég þekki vel . Var samt gráti nær þegar systir mín lét alla hina 41 standa upp og syngja fyrir mig afmælissönginn út í guðsgrænni náttúrunni, - reyndar á barmi hengiflugs til að vera nákvæmur,- það er mögnuð upplifun. Þarna var ekki símasamband og samgöngur eingöngu á fæti eða siglandi. Bara frábær ferð. Mæli með staðnum fyrir afmælishald.
Ég labbaði líka yfir Fimmvörðuháls með samkennurum úr Vallaskóla og síðan með Stóru-Laxárgljúfrum með systur minni. Áður hafði ég æft mig á Esjunni, Búrfelli í Grímsnesi og Ingólfsfjalli.
Þetta voru gönguferðirnar.
Svo fór ég til Leeds með samkennurum úr Vallaskóla. Við vorum þar í 5 daga og það var mjög gaman.
Svarfaðardalurinn að venju. En annars engar stórar ferðir.
Var á milli húsa í einn og hálfan mánuð og bjó þá í íbúð systur minnar í Reykjavík. Þar reyndar upplifði ég höfuðstaðinn á nýjan hátt, en hún á íbúð rétt fyrir ofan reiðhöllina í Víðidal og ég horfði útí Heiðmörk útum eldhúsgluggann og var fimm mínútur að labba útí náttúruna. - Það var gott, en annars er ég bara áfram viss um að ég og Reykjavík eigum ekki samleið.
Svo flutti ég í Rangárþing og þar er gott að vera. - Ætla að vera þar soldið áfram.
Bloggar | Breytt 9.1.2008 kl. 11:26 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.1.2008 | 15:19
Leiklist
Framundan er árshátíð skólans sem verður sameinuð 50 ára afmæli stofnunarinnar. Við ætlum að vera með leikrit um sögu skólans og ég er að fara að semja... Það eru bara 8 vikur til stefnu og ég var að fatta það í dag...
Hvað er ég eiginlega búin að koma mér útí núna????
Hjálp!!!
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
Um bloggið
Hulda Brynjólfsdóttir
Tenglar
Áhugaverðar síður
- ABC-Barnahjálpin Hægt að styrkja barn mánaðarlega.
- Heiðmar Heiðmar er ljóðamaður góður og bloggar af snilld.
- Kvennakórinn Ljósbrá Heimasíða kvennakórsins Ljósbrá.
- Kærleiksvefur Júlla Notaleg og hlýleg síða um mörg og misjöfn mannleg málefni.
- Vinnustaðurinn minn Heimasíða skólans sem ég vinn við.
- Húgó sáli Húgó hefur svo margt gáfulegt fram að færa.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar