Þrettándinn

Ég var á Selfossi í gær. Þar er þrettándinn haldin hátíðlegur með miklum myndarbrag. Farin er blysför í gegnum miðbæinn og kveikt í brennu á útivistarsvæði við tjaldstæði bæjarins og síðan eru jólin kvödd með stórkostlegri flugeldasýningu. Blysförin er leidd af litlum traktor sem dregur kerru með Grýlu, Leppalúða og einhverjum fleirum hárprúðum tröllum og spilar álfalög úr vel háværum græjum og álfakóngur og drottning eru fremst á kerrunni. Síðan eru þrettán jólasveinar sem bera kyndil og ganga í dreifðri röð með fólkinu í þessari skemmtilegu göngu. Áhugasamur sprengjusérfræðingur fylgir göngunni og sprengir upp háværar bombur með reglulegu millibili. Þegar komið er að bálkestinum raða sveinkarnir sér utanum köstinn og leggja blysin að og tendra eldinn.

Í stuttu máli sagt þá finnst mér þetta flottasta samkoma ársins á Selfossi og þó víðar væri leitað. Flugeldasýningin er alveg milljón og gangan er skemmtileg og þarna kemur saman óhemju mikill fjöldi af manneskjum á öllum aldri.

Á meðan flugeldarnir drundu svo undirtók í fjöllunum, þá heyri ég að einn jólasveinninn segir við ungan mann rétt hjá mér: "Hva er Grýla að prumpa?"

Drengurinn alveg dó af hlátri: "Nei, Grýla prumpar ekki svona, það sjást ekki litir þegar hún prumpar!!!"

"Júhú, það eru einmitt svona ljós sem koma þegar Grýla prumpar!" sagði þá sveinki og drengurinn hló enn meir. Grin (ég líka LoL)

Þetta var alveg stórkostlegt og flugeldasýningin engu lík,- hafið þökk fyrir þið sem stóðuð fyrir þessu. Kissing


Ferðamáti

Flestir sem ferðast til útlanda plana það vel fyrirfram og hafa allt á hreinu áður en þeir yfirgefa ástkæra fósturjörð - panta gistingu allan tímann, morgunmaturinn öruggur, bílaleigubíll eða rútuferðir í fyrirfram skipulagðar ferðir og ekki breytt útaf neinu. Sumir fara jafnvel ár eftir ár til sama lands, á sömu ströndina, sama hótelið og helst í sama herbergið.

Vinafólk mitt eitt hefur mjög skemmtilega aðferð þegar það ferðast til útlanda sem mig langar að deila með ykkur ef þið eruð svo kjörkuð að vilja prófa Smile .

Þau panta flug til ákveðins lands,- helst bara nógu ódýrt flug og bílaleigubíl,- kannski gistingu fyrstu nóttina en það er ekki nauðsynlegt. Þegar til landsins er komið fara þau bara þangað sem nefið snýr og láta ferðina ráðast þegar þau eru komin út. Einu sinni þegar þau fóru í svona ferð, þá fengu þau flugfar til Frakklands á mjög sanngjörnu verði. Þegar þau komu á flugvöllinn var fullt af fólki í biðröð að fara inní rútu sem var merkt einhverskonar vínberjanafni (eða eitthvað...). Þau stilltu sér upp í röðina og fóru um borð í rútuna, því hún var greinilega að fara í einhverja ferð sem þau myndu komast til baka úr aftur. Í stuttu máli sagt, þá enduðu þau á vínekru þar sem boðið var uppá vínsmökkun og síðan voru ýmsar uppákomur frameftir degi og svo rútuferð aftur heim í bæinn þar sem þau höfðu lagt af stað. Þau hafa oft lent í mjög skemmtilegum ferðum með því að gera þetta svona og ég verð að segja að mér hugnast þessi ferðamáti Smile .

- Allavega í bland Wink .

Maður á nefnilega að taka sjensinn öðruhvoru og grípa tækifæri sem gefast en ekki sitja alltaf kyrr heima hjá sér af því að það gæti jú hugsanlega kannski eitthvað óvænt gerst sem setti líf manns úr skorðum... W00t 


Nýtt ár er byrjað

...og til hamingju með það allir sem ég sendi ekki sms á nýársnótt eða kveðju í jólakortum Cool .

Nú eru búnir tveir dagar af þessu glænýja ári og það hefur hingað til þótt tilheyra að strengja áramótaheit eða gera einhver róttæk plön. Ég er auðvitað engin undantekning. Heitið er samt alltaf það sama,- lifa heilbrigðu lífi, hreyfa mig og borða hollt. Og ég fer oftast eftir því en gleymi mér svo í þessu dásamlega apparati sem var fundið upp fyrir löngu og heitir góður matur og hvíld (eða leti á góðri íslensku...) Crying - en það þarf nú líka að sinna því.

Ég er samt búin að gera nokkur plön fyrir árið og vona að þau gangi eftir. Ég er samt ekki viss um að þýskunám í tvær vikur í Þýskalandi með vinkonu minni verði að veruleika, en það væri samt vissulega gaman. Hins vegar ætlum við að labba Laugaveginn og erum byrjaðar að plana það. Önnur vinkona ætlar með mér í Veiðivötn og ég vona að það hafist þrátt fyrir að þar sé upppantað áður en sumarið á undan klárast og svo vona ég að það hafist að fá sumarbústað í Hallormsstaðaskógi, en það er ég búin að reyna þrisvar áður held ég... - mamma sagði reyndar alltaf: "Allt er þá þrennt er og fullreynt í fjórða sinn!" og ég hlýt að fá úthlutun þar þetta árið.

Ég ætla líka norður í Svarfaðardalinn, en það er ekki fréttnæmt og svo er ein ferð plönuð á Vestfirðina,- þá held ég að sumarið sé langt komið - ja allavega hýran mín FootinMouth .

En fyrst eru það samt leikhúsin,- hef oftast náð tveimur - þremur sýningum á vetri og ætla að halda því áfram. Ég ætla með soninn í afmælisferð á Ladda (ein af fáum sem er ekki búin að sjá þá sýningu - skilst mér...) og svo höfum við systurnar sameinast á eina leiksýningu á vetri og nú þarf að finna eina sem er þess virði að sjá og svo aðra með vinkonu minni sem ég hef náð að draga með mér líka öðru hvoru. Það væri líka hægt að sameina þá ferð og fara bara á eina sýningu...

Leggjast yfir auglýsingarnar! - Eða fara í óperuna kannski!? Það er nú líka gaman,- verst að maður skilur þær svo illa Errm .


Veðurofsi

Alveg dáist ég að þessu fólki sem berst þarna úti í brjáluðu veðri við að bjarga því sem bjargað verður á meðan veðrið hamast sem aldrei fyrr.

Húrra fyrir ykkur björgunarsveitarmenn,- þið eruð hetjur! Fórnfýsi ykkar og baráttuandi er til fyrirmyndar.

Ég er stolt yfir að við sonurinn skyldum hafa styrkt ykkur undanfarna daga með flugeldakaupum og hvet fleiri til að skipta við björgunarsveitirnar.


Má fólkið ekki bíða?

Ég verð bara að segja, það virðist fara þokkalega um fólkið í þessum bíl þarna uppá jökli, er þá ekki í lagi að láta það bíða þangað til veðrið lagast aðeins??? Mér sýnist að björgunarsveitarmennirnir sem eru á leiðinni til þeirra séu í meiri hættu en þeir sem eru fastir í bílunum. Fólkið kom sér í þessar aðstæður og mér finnst ekki skynsamlegt að setja mannslíf annarra í hættu við að ná þeim úr þeirra eigin heimskupörum.
mbl.is Unnið við erfiðar aðstæður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

"Þetta er ekki mitt rusl!"

Krakkar segja þetta stundum við mig þegar ég bið þau um að taka upp plastpokann sem liggur hjá þeim...

Mér datt þetta í hug þegar ég las uppástunguna um að Flugbjörgunarsveitirnar ættu að týna upp ruslið eftir skotglaða Íslendinga, þegar áramótin eru búin, svo að landið haldist hreint.

Æ!!!

Af hverju í ósköpunum getum við ekki gert það sjálf??? Er það virkilega svona mikil vinna að týna upp það sem er í kringum húsið okkar þegar allt er um garð gengið? Það hefur reyndar virst vera svo, því það eru ótrúlega margir sem gera það ekki, það eru sem betur fer margir sem týna þetta upp, en ég hef séð terturusl alveg fram á vor sumstaðar sem ég hef átt leið um.

Ég segi bara: "Þetta er okkar rusl,- þó svo að við höfum ekki sett það þar sjálf,- tökum það upp!"


í vökinni.

Það er ljóst að þessi sími hefur verið vatnsheldur,- hvaða tegund ætli þetta hafi verið?

 


mbl.is Var í 40 mínútur í vökinni
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

áramótin

Framundan eru dagar sem hafa oft reynst tveimur fjölskyldumeðlimum afar erfiðir á mínu heimili. Kannski verður einhver breyting hér í sveitinni,- allavega hjá öðrum þeirra. Þessir tveir aðilar hafa ætt um húsið í óþægilegri spennu.

Annars vegar er það sonurinn sem þráir ekkert frekar en að fá að skjóta upp nokkrum bombum og spennan og tilhlökkunin er algjörlega að fara með hann, þannig að hann sefur varla, liggur yfir bæklingum frá flugbjörgunarsveitum og slysavarnarfélögum og merkir við þá flugelda sem hann langar mest í og þess á milli æðir hann um og gerir móður sína gráhærða(ri) með endalausum spurningum um hvort hann megi kannski skjóta einum upp núna!!!

Hins vegar er það tíkin. En hennar vælandi þramm fram og aftur um húsið er af gagnstæðri ástæðu,-   = skelfingu! Hún varð fyrir því óláni að ýlu var skotið upp rétt hjá henni þegar hún var hvolpur og síðan hefur ljósadýrð í lofti og snöggir hvellir alltaf gert hana algjörlega ómögulega. Þá vælir hún og ýlfrar, æðir í hringi um húsið og felur sig undir borðum og stólum og horfir skelfingaraugum upp í loftið.

Þar sem að bomburnar byrjuðu að hljóma á Selfossi strax og sölurnar opnuðu þá var þetta nokkuð langur tími fyrir dýrið og ekki hægt að setja hana á róandi alla þessa daga. En ég á von á að hér í sveitinni verði þetta rólegra og jafnvel ekkert fyrr en á réttum degi,- nema það sem sonurinn fær að láta á flug - svo að ég haldi þokkalega sönsum.

En semsagt á morgun á víst að gera sér ferð á Hellu til að styrkja flugbjörgunarsveitina og svo þurfum við að ráða fram úr því hvar við verðum,- lýst best á að fara austur á land - eða norður miðað við veðurspána,- stakk upp á því að vera í Reykjavík og sjá ljósadýrðina þar, en ætli við yrðum ekki skotin niður þar þegar rokið gengur yfir bæinn,- þannig að málið er ennþá óleyst.

Æ,- það er alltaf gaman að búa við smá spennu. Ætli Hrunamannahreppurinn verði ekki fyrir valinu, það er svo ofarlega að kannski verður þar besta veður og allar bombur rata til himna!


Jól allra tíma!

jólatré Við erum að tala um jól eins og jól eiga að vera. Svona er snjórinn búinn að vera síðan á aðfangadag og það hefur bara bætt við hann á hverjum degi. Mjúkur, hreinn og yndislegur jólasnjór sem dempar öll hljóð og er fallegur og virðist vera eins og hlý sæng.

Við höfum átt bestu jól ever,- held ég! Við höfum að sjálfsögðu etið góðan mat, tekið upp pakkana og tekið þátt í veraldarvafstrinu eins og allir aðrir. En við höfum líka notið þess að vera til, fundið fyrir frið og ánægju yfir því að vera saman og njóta lífsins.

Við renndum okkur á snjóþotu, byggðum snjóhús P1010637,

sátum úti á tröppum og horfðum á tunglið með friðarkerti okkur við hlið á tröppunum - og það var alveg geggjað! (tunglið sko...) - það var bjart og fallegt og lýsti upp skýin með gullnum bjarma...  

og svo var andlitið á Kleópötru púslað af miklum móð,- sú minnsta fékk reyndar ekki að vera með í því, en hún mátti spila með okkur. Smile

Í dag fóru börnin í jólaboð með föður sínum og ég fór að syngja í kirkjukórnum og það var nokkuð stórbrotin lífsreynsla. Messan var í lítilli kirkju hér rétt hjá og þegar hringjarinn hringdi klukkunum, þá fann maður hvernig kirkjan titraði pínulítið,- kórinn stóð við hliðina á altarinu og söng þar frammi fyrir öllum. Stundin var einhvernvegin svo hátíðleg og stórbrotin að maður fann til sín þarna uppi. Kannski hafa jólin bara þessi áhrif á mann?! Annars held ég að þetta sé allt spurning um hugarfar.

Ég eyddi síðustu helgi í Reykjavík með systur minni og við fórum saman í búðir. Fyrst fórum við í Kringluna þar sem allt var troðið af fólki með geðveikisglampa í augum, leitandi að gjöfum við hæfi! En þegar tölvukerfið í Reiknistofu Bankanna fraus með 50 manns bíðandi við kassann í Hagkaup og ég var næstfremst í röðinni, þá áttaði ég mig á því að þetta var allt saman misskilningur. Það var ekki einn einasti maður sem missti stjórn á sér á meðan beðið var eftir að kerfið færi í lag. Fólk spjallaði bara saman og brosti vorkunnsamt til afgreiðslufólksins,- hvergi var geðveiki að sjá, heldur bara afslappað og rólegt fólk sem naut þess að versla.

Við fórum svo á Laugaveginn um kvöldið (reyndar tvö kvöld í röð, því við urðum að upplifa Þorláksmessu stemningu þar...) og þá sá maður einhvernveginn allt annarskonar fólk. - Þetta hefur reyndar verið rætt áður Smile - það er öðruvísi stemning á Laugaveginum en í Kringlunni! Fólk er rólegra og kannski meira komið þangað til að sýna sig og sjá aðra heldur en til þess að versla. Kórar og tenórar sungu á götuhornum og við Sólon þar sem tenórarnir 3 og Ólafur Kjartan sungu og skemmtu var umferðarteppa,- fólk komst ekki lengra.

Þessir tveir dagar voru ekki síður yndislegir en jólin hafa verið fram að þessu,- þó svo að loftræstigrindinni hafi verið stolið af skodanum mínum í bílageymslu systur minnar á meðan við transportuðum á hennar bíl um höfuðstaðinn.

- Það gat ekki eyðilagt jólafílinginn hjá mér og heldur ekki skíturinn úr músarræflinum sem hafði farið innum baðherbergisgluggann hjá mér og gert þarfir sínar ofan á klósettkassann,- það er ljóst að hún veit til hvers klósett eru Wink !!!

Segið svo að mýs séu heimskar.


Salernis-afþreying.

Mín ástkæra stóra systir er búin að segja mér upp sem aðstoðarmanni við að hengja jólaseríu á svalahandriðið Cool ,- segir að þetta eigi að tolla og hvort ég hafi ekki orðið vör við hvernig veðrið geti verið hérna Sunnanlands... LoL - Einmitt eitthvað sem ég missti af...  

"Farðu bara inn og fáðu þér kaffi, ég tala við þig á eftir..."

Þannig að nú er hún ein þarna úti að setja þessa blessuðu seríu upp.

En ég verð að segja ykkur frá alveg frábærri afþreyingu sem hún er með á klósettinu - og fékk í leynivinagjöf á sínum vinnustað; Það er klósettrúlla með einni sudoku-þraut á hverju bréfi W00t ...

Sko fyrir þá sem t.d. lesa á klósettinu, þá finnst mér þetta algjör snilld!

Fólk er svo hugmyndaríkt!!!Smile


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband