ekki alveg hætt

Ég held ég sé alveg að finna mig hérna á bloggsíðunni,- eða þannig... - ætli ég þegi svo ekki þunnu hljóði eitthvað fram eftir nýrri viku, það mætti segja mér það Crying . Það er bara þannig að stundum hefur maður fullt að segja og stundum ekki neitt.

Mig langaði aðeins að segja frá leynivinavikunni okkar. Hún var nefnilega "komin útí tóma vitleysu" eins og sumir orðuðu það, því það var enginn - eða fáir sem höfðu einhverja hrekki í frammi, heldur voru allir bara nokkuð góðir við vini sína og gáfu helst eitthvað matarkyns. Konfekt eða svoleiðis. Einum datt þó í hug að fylla vasa vinar síns af hrísgrjónum og öðrum hugkvæmdist að binda saman allar svunturnar hjá þvottakonunni áður en þær fóru í þvottavélina,- en það eru nú reyndar nokkuð saklausir hrekkir.

Það sem mér fannst hins vegar skemmtilegast var að eftir litlu-jólin borðuðu allir saman og fengu kaffi og rjómabombu og síðan var farið yfir leikinn. Hver og einn sagði frá því sem hann fékk og reyndi að giska á hver hafði verið vinur hans og það var verulega skemmtilegt og þegar ljóst var hver var vinurinn féllust þeir grátandi í faðma... - eða þannig...

Þetta var ekki gert þar sem ég vann síðast, en þar voru reyndar heldur fleiri starfsmenn en hér og það því næstum ógerlegt, nema við hefðum frestað jólunum um sirka einn dag eða svo...

Þetta var gaman,- húrra fyrir leynivinavikum!!!


Jólakortin

Yfirleitt er ég búin að skrifa öll jólakort í byrjun desember þó ég sendi þau ekki fyrr en nær dregur jólum, en nú hef ég aldrei verið eins seint á ferð með kortin mín. Það síðasta er samt farið í réttar hendur og samviskan góð hvað það varðar.

Ég eyði alltaf dálitlum tíma í þennan viðburð sem tengist jólum. Mér finnst gaman að skrifa jólakort og legg þó nokkra vinnu í þau og mér finnst líka alveg óskaplega gaman að fá jólakort frá öðrum. Mér finnst þetta alltaf staðfesting á því að fólki þyki vænt um mig og hugsi til mín.

Hvað kortin sem ég sendi varðar, þá tek ég einhverja góða ljósmynd, -gjarnan af börnunum mínum sem mér finnst eðlilega vera fallegustu börn sem fædd hafa verið og dreifi á vini, ættingja og góðkunningja, hvort sem þeim líkar betur eða verr. Síðan skrifa ég óskaplega hlýlega jólakveðju og þakka liðið ár. Ég viðurkenni fúslega að ég verð alltaf svolítið væmin þegar kemur að þessum kveðjum, mér þykir mun vænna um vini mína á þessum tíma en á öðrum tímum árs og ég segi þeim það í kortunum. InLove 

Mér finnst líka fátt leiðinlegra en að fá bara "þökkum liðið" undir áprentaða kveðju sem stendur í kortinu hvort eð er,- mér finnst eiginlega ekki taka því að senda svoleiðis kort.

Mér finnst allt í lagi að fá kort sem eru búin til í tölvu ef þau hafa svona hlýlegar kveðjur (hef heyrt að sumum finnist þau ekki eins persónuleg...). Svo eru sumir sem skrifa bréf þar sem fram kemur hvað þeir og afkomendurnir hafa verið að sýsla á árinu sem er að klárast. - Það finnst mér líka mjög skemmtilegt. Svolítið tímafrekt samt ef þau eru mörg,- en kortin les ég við kertaljós þegar ég er búin að vaska upp eftir möndlugrautinn sem borðaður er í hádeginu á aðfangadag á mínu heimili. - Ætli ég verði ekki ein um rjómablandaðan grautinn þessi jólin, því börnin vilja hann ómengaðan með rúsínum og engu öðru, - ekkert rjómasull eða vanilludropa,- oj bara! segja þau þá, kanil útá og ekkert annað takk fyrir kærlega! En ég er bara svo mikill sælkeri að ég hugsa að ég þeyti nú rjómaslettu útá minn skammt. Smile

Ég veit að það er fullt af fólki þarna úti sem ég sendi ekki kveðju á þessum jólum og mig langar að setja inn hérna eina kveðju svona af því að jólin eru eiginlega alveg komin.

Elsku þið sem lesið þetta: Mínar allra bestu óskir um gleðileg jól og farsælt komandi ár. Hafið það sem allra best á nýju ári og njótið lífsins,- það er alltof stutt til að njóta þess ekki Kissing .


jólaþreyta

Ætli það fari ekki svo að ég sofni ofan í möndlugrautinn á aðfangadag eins og sumar aðrar húsmæður Grin ... Alveg er makalaust hvað dagarnir fljúga hjá!!!

Litlu-jólin voru í dag og maður því kominn í jólafrí og ekki alveg vanþörf á ef maður á að koma húsinu í skikk fyrir jólin. Ég er reyndar alvarlega að hugsa um að nýta mér húsráðið sem ég fékk fyrir nokkrum jólum síðan, en það fólst í því að deyfa lýsinguna, kveikja bara á kertum, þá sést ekki húsaskúmið í skotunum og síðan að hella smá Ajax á ofnana Cool og fá þannig hinn rétta hreinlætis-ilm. En þetta bragð strandar reyndar á því að í þessu blessaða húsi eru engir ofnar!!! Og hvað gera bændur þá?

Ég gæti náttúrulega sett smá af piparkökum í bakaraofninn og kveikt á honum! hmmm??? FootinMouth Ojæja. Ég hef einhver ráð. Ég hef aldrei orðið vör við að jólin komi ekki þó eitthvað sé eftir. Bara spurning um hversu miklar kröfurnar eru. Þær eru allavega ekki alltof miklar hjá mér, því annars sæti ég ekki hér og skrifaði þessa vitleysu, heldur væri að þurrka af,- he he he.

Nei, þetta er bara spurning um skipulag og hér með er ég farin til að taka á þessu skipulagi.

Adjö! Happy


Skógarhögg og fleira

Dagurinn í dag er búinn að vera dásamlegur Kissing .

Ég byrjaði á því að fara með börnin uppað Snæfoksstöðum í Grímsnesi og þar fengum við að labba útí skóg og höggva okkur (saga) jólatré. Við völdum glæsilega, en trúlega fullstóra, stafafuru, sem sonurinn sagaði niður eftir miklum kúnstarinnar reglum sem hann setti sjálfur. Kallaði svo "TIMBUR" þegar það datt á hliðina með stíl.Grin - Tréð var síðan dregið uppað skemmu þar sem því var pakkað, greitt fyrir og bundið á toppinn á skodanum með snærisspotta sem skógarvörðurinn fann fyrir mig. Í boði var kaffisopi, svali og piparkökur til að fullkomna þessa heimsókn.

Yngsti meðlimurinn var ekki tilbúin til að fara úr skóginum og ég held að tíkin hafi líka viljað vera lengur, en við vorum búin að fá okkur smá göngu um skóginn aukalega svo nú varð að halda heim á leið.

Þetta er í fyrsta skipti sem Skógræktarfélag Árnesinga er með svona í boði og þeir verða að fá stórt HRÓS fyrir framtakið.

Við urðum að stoppa nokkrum sinnum á heimleiðinni til að festa tréð betur og í eitt skipti keyrði bíll framhjá, stoppaði hjá mér, út steig maður og bauð mér aðstoð,- og meiri spotta. Wink Segið svo að fók sé hætt að bjóða aðstoð.

Þegar heim kom var tréð tekið af toppnum og sett í skjól, svo það fjúki nú ekki í næsta illviðri (sem er reyndar brostið á...) og svo var haldið áfram að skemmta sér.

Við fórum á tónleika sem haldnir voru í helli hér uppvið Skarðsfjall. Sönghópurinn Góðir Grannar sem telur fjóra karla og fjórar konur sungu þar bæði skemmtileg og hátíðleg jólalög og það eitt og sér var alveg snilld. En staðurinn fullkomnaði verkið,- Þvílíkur hellir!!!

Hann var bæði stór og langur,- hátt til lofts og hleðslur á nokkrum stöðum. Bara algjörlega geggjaður og hæfði sögunum af Grýlu og jólasveinunum, huldufólki og álfum alveg fullkomlega. Maður gat alveg skilið hvernig þessar sögur urðu til í gamla daga þegar fólk bjó í dimmum torfhúsum.

Verði einhverntímann eitthvað haldið þarna aftur sem ég heyri af,- þá fer ég!

Til að toppa daginn var mér svo boðið í pressu-kaffi hjá kunningjafólki mínu þarna á næsta bæ með nýbökuðum smákökum.

= Fullkominn dagur! Smile


Um veðrið

Umræður um veðrið hafa alltaf verið vinsælastar þegar tveir eða fleiri Íslendingar koma saman. Ég er ein af þeim sem spái mikið í veður. Mér finnst mjög sjaldan vont veður, en þegar það er gott (að annarra mati...) þá finnst mér það alveg himneskt. Mér finnst t.d. ekkert vont að láta rigna soldið hressilega,- enda alin upp við það að þurfa jafnvel að sækja kýr eða fara á hestbak að smala kindum í lemjandi slagviðri eða slyddu. Man þegar ég var 11 ára og fékk að fara í sundbol út að leika mér í svona "sunnlenskri rigningu" (þá rignir á hlið) - Ég man enn hvað það var gaman!!!

Reyndar finnst mér rok og frostt (þurrakuldi) í marga daga á vorin frekar mikið leiðinlegt veður. FootinMouth

Ég var svo heppin að vera að keyra heim milli 11 og 12 í gærkvöldi. Var stödd rétt hjá Heklu þegar ég lagði af stað,- en það er auka-atriði. Hérna rétt fyrir ofan er mjög skemmtileg hæð þar sem ég sé ljósin frá öllum þéttbýliskjörnum á Suðurlandi; Selfossi, Eyrarbakka, Stokkseyri, Þorlákshöfn, Þykkvabæ, Hellu, Hvolsvelli og Vestmannaeyjum. Æ,- fyrirgefiði, ekki Vík né Hveragerði.

Þarna í gærkvöldi varð ég bara að stoppa, því fyrir utan allar þessar jólaseríur fyrir framan mig, þá var stórkostlegasta ljósasýningin á himninum. Algjörlega stjörnubjart! VÁ! - engin norðurljós að vísu og eitthvað smáský fyrir þessu litla tungli sem er að vaxa þessa dagana, en samt...

Og núna er svona himneskt veður- algjörlega milt, logn og skýjað.

Farið út, þið verðið að smakka!!!


Leynivinir

Við erum semsagt með leynivinaviku á mínum vinnustað þessa vikuna. Þetta er held ég orðið algengt eða nauðsyn á hverjum vinnustað,- kannski til að rífa upp móralinn og kristilegt hugarfar fyrir jólin.

Ég hef tekið þátt í svona vikum undanfarin ár og hef mjög gaman af þeim,- alltaf svo gaman að gefa og gleðja.

Nú er ég á nýjum vinnustað og þar hefur það tíðkast að hrekkja náungann í bland við að gleðja hann. Ekki illa samt, bara góðlátleg stríðni. Einu sinni var bókasafnið skreytt með klósettpappír, einn auglýsti sófasett vinar síns til sölu og setti símanúmer hans í hérðasblöðin, einhver setti gúmmíhanska uppá púströrið hjá sínum vini og fleira slíkt. Ég verð að viðurkenna að þó ég sé pínulítið stríðin í eðlinu, þá er ég alveg steingeld þegar kemur að þessum hluta vinskaparins.

Mér finnst það heldur ekki vera góð vinátta að hálf taka mann á taugum með einhverjum sprengingum þegar maður setur bílinn í gang. Þannig að ég held mig við að gefa og gleðja og vona að vinur minn verði ekki sár yfir að vera ekkert strítt þessi jólin. Angry 

 

 

 


Jákvætt hugarfar

Þegar ég les blogg frá öðrum, þá finnst mér stundum eins og það að vera bloggari snúist um að agnúast út í þjóðfélagið og hafa neikvæðar skoðanir á því sem gengur og gerist. Stundum verður maður hálf þunglyndur að lesa sum blogg og finnst fólk almennt vera pirrað út í samfélagið. Þetta á þó alls ekki við um alla bloggara,- síður en svo.

Ég ætla mér að vera svona jákvæður bloggari, sem bendi á það sem vel er gert Happy.

... en fyrst...

Alveg get ég orðið svakalega pirruð yfir þessu blessaða fólki sem hefur ánetjast sígarettum og öðrum rjúkandi illa lyktandi stautum sem það setur upp í sig. Ég veit að þetta er ávani sem er erfitt og stundum illmögulegt að venja sig af og að þessum vesalingum hefur verið úthýst nánast alls staðar. En ég ÞOLI ekki að þurfa að labba í gegnum stækjuna frá þeim í svo til hvert skipti sem ég fer inn í búð!!!

Það er nefnilega bannað að reykja í búðum, en ekki fyrir utan þær og þar stillir fólk sér upp,- helst í hurðargatið og blæs í allar áttir. Það er jafngott að maður hefur stór lungu og getur dregið andann djúpt áður en maður leggur í 'ann og nær andanum aftur þegar maður er kominn vel inní grænmetiskælinn!

 ...og svona í leiðinni...

Fór í Kringluna í dag,- sem ég geri MJÖG sjaldan og ég varð hálf þunglynd að horfa inní búðirnar,- Það er ALLT svart!!! Öll föt, jólaskrautið,- bara allt (fannst mér allavega)

- Kannski var það bara af því að ég var nýbúin að labba í gegnum svona reykingahóp!?! Crying

Ef ekki, þá er ástandið slæmt, því ég minnist tvisvar á þunglyndi í þessum pistli,- það er jafngott að ég fari að standa við það sem ég ætla mér. Smile


Aðventan

Núna er aðventan hálfnuð,- eða hvað? Eru ekki komnir tveir sunnudagar! Er hún þá hálfnuð núna eða næsta laugardag? Sennilega næsta laugardag, því þá eru komnar tvær vikur og samkvæmt íslensku dagatali, þá byrjaði Guð á að hvíla sig áður en hann skapaði heiminn sem er reyndar gott, því allar góðar framkvæmdir þurfa að byggja á góðu skipulagi. Lögðust líka ekki Þorgeir og þeir undir feld hérna forðum áður en þeir ákváðu hvort við ættum að verða kristin? Sleeping 

 Annars finnst mér aðventan eiga að tilheyra jólunum og þeim boðskap sem hátíðinni fylgir. Við eigum að njóta aðventunnar með fjölskyldu og vinum í afslöppun og ánægjulegum verkefnum. Hér áður hömuðust húsmæður við tiltektir og bakstur langt fram á nótt og voru svo uppgefnar þegar jólin gengu í garð að þær sofnuðu ofan í möndlugrautinn. (Ekkert mikið ýkt... Shocking)

Þetta hefur sem betur fer breyst og fólk bakar ekki 30 sortir af smákökum lengur,- ekki svona almennt, kannski einhverjar samt. Ég er í mjög góðu samstarfi við kexverksmiðjuna Frón og Göteborgs pepparkakor. Ætla samt að baka með börnunum á morgun eftir skóla, hitt er bara svona upphitun, því börnunum mínum finnast mínar piparkökur betri en þessar sænsku.

Mér finnst samt líka stundum svolítið kaldhæðnislegt að á aðventunni er fólk svo óskaplega upptekið við að skapa notalegar stundir hreint út um allt, að það er orðið hundstressað yfir að komast á þetta alltsaman. - Þetta þekkja foreldrar kannski best, því það eru jólakvöld og aðventuhátíðir í skólanum, leikskólanum, íþróttadeildinni, skátunum og í vinnunni og stundum rekst þetta hvað á annað. Þá fer einhvernveginn afslöppunin sem á að fylgja þessu af og sjarminn verður enginn. Foreldrar þurfa að fara á sitthvorn staðinn með sitthvoru barninu og ef þau skyldu nú eiga fleiri en tvö börn, þá þarf að fá afa og ömmu til hjálpar. - Þetta er heldur ekkert mikið ýkt. Cool

Gleðilega aðventu Kissing


Tónleikarnir

Alveg tókust tónleikarnir okkar á föstudaginn glimrandi vel,- gæsahúðartónleikar myndi ég segja... Smile.

Ólafur Kjartan Sigurðarson var frábær, hann er bæði þrusugóður söngvari og mjög skemmtilegur sögumaður með glimrandi húmor. Hann söng einsöng á milli kóranna og sagði sögur og gerði grín.  

Allir kórarnir sungu þrjú lög hver. Karlakórinn var með sérstaklega fallegt lag sem ég hef ekki heyrt áður sem fjallar um Jesúbarnið í mér og þér. Man ekki í augnablikinu nafnið, en set það hér inn þegar minnið skolast inní kollinn.

Í lokin sungu svo allir kórarnir saman og Ólafur Kjartan með okkur og það varð þrumandi hljómur.

Þeir sem komu að hlusta (og húsið var fullt) voru ánægðir - hinir sem voru heima misstu af góðri upplifun, en hefðu kannski ekki fengið sæti hvort eð var...


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband