Fjölmennara svæði.

Það er ekkert skrýtið að tjónið sé meira nú en árið 2000. Jarðskjálftinn átti upptök sín við mun fjölmennara byggðarlag núna heldur en þá. Þannig að það eru fleiri hús sem urðu fyrir tjóni núna.

Fólk talar líka um að þessi skjálfti hafi verið allt öðru vísi og bæði meiri og sterkari en hinn (hinir) og lætur fylgja sögunni að það hafi verið á sama stað í bæði skiptin og geti því borið þá vel saman...

Ég man vel eftir báðum skjálftunum árið 2000 og hef upplifað nokkra minni skjálfta, þeir eru mjög ólíkir og áhrif þeirra ólík eftir því hvaðan þeir koma. Ég var utandyra núna um daginn þegar sá síðasti kom og missti eiginlega af honum. En mælitæki segja að hann hafi verið jafnstór eða svipaður og hinir tveir og því finnst mér ekki rétt að segja að hann hafi verið MIKLU harðari, bara af því að núna varð hann við stærra byggðarlag. Woundering


mbl.is Mun meira tjón í jarðskjálftanum en árið 2000
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Kvennahlaupið

Kvennahlaupinu hér á Laugalandi var frestað vegna veðurs og var "hlaupið" í gærkvöldi.

Við Agnes og Píla drifum okkur í kvöldblíðunni Smile.

Kvennahlaupið 003

Kvennahlaupið 001  Kvennahlaupið 1

Við vorum samt bara fimm sem trítluðum saman, en það var mjög gaman og frískandi.


Ferðahugur

Ég var í Glascow. - Aðallega til að skoða skóla. Skoðaði eina 4 skóla og það var mjög skemmtilegt. Fróðlegt og margar hugmyndir sem ég náði mér í til að stela og nota sjálf Cool.

En svo var líka verslað og borgin skoðuð og einn dagur notaður til að heimsækja Edinborg sem var mjög gaman, enda falleg borg.

Það sem uppúr stendur er samt rútuferð um skosku hálöndin eða að þeim og sigling á vatninu Loch Lomond. Það var mjög gaman að sjá Skotland frá öðru sjónarhorni en í H&M og upplifa sveitastemninguna í Hálöndunum. Sjá hálenskar kýr og orginal Skota í pilsum og öllum græjum.

Ég komst að því að í raun er margt líkt með okkur Íslendingum og Skotum. Til dæmis þjóðarstoltið. Þeir ganga samt eiginlega skrefi lengra því þeir telja með alla sem eiga ættir að rekja til Skotlands, þegar þeir tala um fjölda Skota. Þeir semsagt tala um Skota í Skotlandi og Skota í heiminum öllum. Þeir halda líka fast í ættarnöfn sín sem flest byrja á Mac,- allavega ef þeir koma úr Hálöndunum, en Mac þýðir sonur. Aulaðist ekki til að spyrja hvernig dóttir hljómar eða hvort konur haldi ættarnöfnum sínum... Woundering .

Maður er alltaf smá stund að melta allt sem maður innbyrðir í svona ferðum. En niðurstaðan er samt; góð og gagnleg ferð.
Mæli með Skotlandi.

Við flugvélina Bara eins og að fljúga á Egilsstaði, gengið í vélina utanfrá. Sekkjapípuleikari Sumir reyna að hafa í sig og á með því að spila á sekkjapípur á götuhornum.

 Maí og júní 2008 275 Í siglingu á Loch Lomond.

Maí og júní 2008 270 Kastalar um allt. Þarna má líka finna flottasta golfvöll Skotlands, en eins og flestir vita, þá kemur golf frá Skotlandi... Eins og wiský Wink

Maí og júní 2008 258 Og svo var það hann Hamish sem er hálenskt naut og ákaflega geðugur að auki.

 


Þetta er flott

Gaman að svona. Flottir krakkarnir í leikskólanum að búa til afmælisaldurinn.Smile
mbl.is 100 ára Hafnarfjörður
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Skólalok

Ég er alveg að komast í sumarfrí.
Það er hálf skrýtin tilfinning alltaf, að sleppa hendinni af nemendum og fara útí fríið.

Síðasti dagurinn með mínum bekk var í dag, en á morgun verð ég með 7. bekk í trjáklippingum og snyrtingu við skólann. Í hádeginu verður grillað og síðan fara allir heim. Ég er með mikla vinnumenn í þessum hóp og ég er mest hrædd um að ég hafi ekki nóg handa þeim að gera.

Í dag var mikið gaman hjá okkur í 1. og 2. bekk. Við fórum í langa göngu að leita að skógi eða trjálundi sem mér hafði verið sagt að væri í góðri gönguleið frá skólanum. Þar væru líka gamlar tóftir og úreltir traktorar sem hægt væri að leika sér í. Við lögðum af stað í bítið, tókum nestið með og gengum í átt til skógar... FootinMouth 
Ég verð að segja að þetta er sá best faldi skógur sem ég hef vitað um.
Þetta var eins og í sögunni af Búkollu; við gengum lengi lengi, settumst niður og átum nesti, en hvergi baulaði Búkolla. Endaði með því að við snerum við og löbbuðum heim, án þess að finna svo mikið sem eina grein.
Það er bara með þessi Holt hérna að það sér enginn maður neitt frá sér, því um leið og komið er uppá einn hólinn er annar framundan sem ekki sér yfir... grrr!!

Við bjuggum til pítsudeig og létum það hefast fram yfir hádegi, en þá var lagt í hann með 3. og 4. bekk líka, hjólbörur fullar af gangstéttarhellum, grillkol, olíu og ýmislegt matarkyns. Að þessu sinni var bara farið að skóginum sem vex allt í kringum skólann Smile
Hlaðnar voru hlóðir úr gangstéttarhellunum, þurrum greinum og kolum raðað ofan í ásamt góðum skammti af sinustráum og pokanum utanaf kolunum, kveikt í með stæl og laggó; bálið brennur! Cool
Voru nú grillaðar pylsur með brauði vöfðu utanum yfir opnum eldi og það þótti mörgum skemmtilegt! (ekki síst mér)

Skemmst er frá því að segja að við fórum ekkert meira heim í stofu. Við vorum bara þarna í leikjum og sleiktum sólskinið. - Þetta bara hljóta að vera þau bestu skólalok sem hægt er að hugsa sér.


Myndir

Má til með að setja mynd þar sem ég hangi í líflínu félaga minna í Adrenalín-garðinum síðasta föstudag.
Þarna er ég semsagt búin að sleppa mínum ástkæra staur, en held í staðinn dauðahaldi í sjálfa migBlush Crying - Það var bara erfitt að þora að sleppa því eina jarðfasta sem ég hafði.

Hangandi í staur2

og hanga svo bara í lausu lofti... Pinch

 

Adrenalín 2

Mismunandi mikill áhyggjusvipur á þátttakendum,- sumir reyna að brosa kjarklega Blush

adrenalín 4

Svona hjálpuðumst við að við að halda fólkinu uppi... ja sumir reyndar áttu brýn erindi í símanum...


Já alveg rétt

Júróvisjón var í kvöld.

Ég verð því miður að játa það að ég er ekki áhugamanneskja um júróvisjón. Fylgist bara ekkert með því. Veit samt hvaða lag fór fyrir Ísland og mér skilst að Rússland hafi unnið núna. Ég reyndar sá það lag flutt í undankeppninni, því þegar ég heyrði Sigmar segja að heimsmeistarinn í skautadansi væri á sviðinu með þeim, "...en hann fengi bara plastdúk til að skauta á sem væri á stærð við heita pottinn í sundlaug Garðabæjar. Það væri svipað og heimsmeistarinn í bruni myndi skíða niður hraðahindrun!" Þá stóð ég upp og sagði: "þetta bara verð ég að sjá!"   - Það var reyndar alveg þess virði.

En á fimmtudaginn bauð ég unglingunum mínum að halda smá júróvisjónpartý og það var mjög skemmtilegt - fannst þeim! Það er samt ekkert mjög sniðugt að blanda saman 7 krökkum af báðum kynjum þegar þau eru 11 og 12 ára gömul. Allavega ekki þegar plássið er ekki meira en það er hjá mér. Það var ansi mikið karpað og kýtt. Þegar sjónvarpið hafði verið hækkað í 79 til að heyra í því yfir rifrildið, fór ég og skakkaði leikinn og fékk miklar yfirlýsingar um hvað "hitt kynið" væri óþolandi. Grin 
En þegar þau fóru sögðu þau að það hefði verið "gegt gaman!"

Þetta dugði alveg fyrir mig,- þarf ekki meiri stemningu yfir Júróvisjón.


Dýrðardagar

Sumir dagar eru bara betri en aðrir. Þetta var einn af þeim.

Ég var náttúrulega í svo miklum ham eftir adrenalín-kikkið í gær að ég var varla vöknuð þegar ég var lögð af stað í fjallgöngu. Þetta er svo sem ekki í fyrsta skipti sem ég labba uppá Ingólfsfjall, en núna ákvað ég að labba í áttina að Inghól sem er á svo til miðju fjallinu og af honum sér maður til allra átta. Hann sést líka svo til alls staðar að þegar maður horfir á Ingólfsfjall af jörðu niðri... í hæfilegri fjarlægð að sjálfsögðu.
Og það vantaði ekki að útsýnið er geggjað þarna ofan af. Maður sér til allra átta, vötn, ár og fjöll í allar áttir og svo á haf út. Því miður var aðeins skýjað svo ég sá ekki allt nægilega skýrt, en það er bara til þess að ég mun fara um leið og sólin skín aftur og sjá þetta í bjartara veðri og þá ætla ég líka að hafa með mér myndavél.

Ein vinkona mín er að smíða hús og seinnipartinn fór ég að hjálpa henni við að setja síðustu gifsplöturnar á sinn stað svo málararnir geti farið að mála. Þegar það var búið var passlegt að fara að grilla og sá ég um það á meðan hún gerði sósu og fleira meðlæti. Nammi namm.

Til að fullkomna daginn var síðan lagt á sitthvorn hestinn og riðið útí vorkvöldið. Á góðum hesti á fallegu kvöldi og reiðgöturnar bara sendnar moldargötur.

Ég segi eins og maðurinn; Bikar minn er barmafullur!


Kjarkæfing

Á dauða mínum átti ég von...

Þegar Adrenalín-garðurinn á Nesjavöllum var opnaður fyrir ekki svo mjög löngu síðan, hugsaði ég með mér og sagði áreiðanlega upphátt líka; "þangað mun ég nú aldrei láta draga mig!"

En það er eins og sagt er; maður á aldrei að segja aldrei, því aldrei getur aldrei orðið aldrei. Ég fór þarna í dag. Pinch 
Óvissuferð með samstarfsfólki mínu. Þegar ég var mætt á staðinn horfði ég á þessa staura og hugsaði með mér; "þetta er fáránlegt!"
En ég hef aldrei farið eitthvað án þess að taka þátt í því sem gert er og því var ég fljót í beltið sem maður er klæddur í þannig að manni líður eins og í skírlífsbeltunum sem voru læst hérna á Viktoríutímunum (eða hvenær það var...) setti hjálm á höfuðið og var manna fremst að raða mér upp við tækin.
Fyrst var klifrað upp 11 metra háan klifurvegg. Þar sem ég hef áður klifið svona vegg, fannst mér það lítið mál. Hinir í hópnum halda í línuna sem maður er festur við og skólastjórinn var aðeins tímabundinn. Hann dró því þann sem var að klífa upp á eigin handafli, þannig að maður þurfti ekkert mjög mikið að hafa fyrir þessu. Svo var bara látið gossa niður aftur,- í sigstöðu takið eftir.
Næst var það staur, sem mitt nákvæma auga taldi vera ca 15 metra á hæð. Utan á honum voru járnkrókar sem maður klifraði upp (það gekk reyndar vel) þegar upp var komið átti maður að standa upp, snúa sér í hring, mæla eitthvað skáldlegt og stökkva svo framaf!!!!! (Línan hélt manni að sjálfsögðu)
Í stuttu máli sagt voru þarna nokkrir sem léku sér að þessu, en með mér og staurnum tókust miklir kærleikar þegar ég átti um þrjá króka eftir uppá topp. Var semsagt komin í um 12 - 13 metra hæð. "Ég fer ekki lengra!" sagði ég.  "Það er allt í lagi!" sagði gaurinn sem stjórnaði, "slepptu bara staurnum!"   Blush  Eftir dálitlar fortölur og áköf faðmlög við staurinn sleppti ég loks alveg og lét mig vaða. - Það var reyndar ekki alveg eins slæmt og ég hélt.
Næst fengum við að fara í rólu sem var dregin upp í þetta 10 - 11 metra hæð og svo sleppti maður. Ég verð að viðurkenna að þá var ég farin að sjóast og þvílíkt kikk sem ég fékk út úr því.
Og að lokum vorum við dregin að hún upp í línu þar sem við snerumst nokkra hringi og vorum svo höluð niður aftur. Eftir hin ósköpin var það alls ekki flókið.

Þetta var geggjað!
Ég fer aldrei aftur!

Þarf þess heldur ekkert,- það er nóg að gera svona einu sinni. Wink


Garðsláttur

Í gærkvöldi slóum við Guðlaugur garðinn í fyrsta sinn á þessu sumri. Það gekk þokkalega með lánssláttuvél sem þurfti reglulegan hvíldartíma. Náði hún hálfum hring og svo dó á henni. En svo náðum við samningum við hana og hún ákvað að vinna möglunarlaust án þess að taka hvíld. Náðum við að slá garðinn án frekari tafa. - Við ættum kannski að taka að okkur samninga við vörubílstjóra!?

Besta lykt heims fyllti síðan loftið á eftir. Lyktin af nýslegnu grasi er bara algjörlega frábær. Svo ekki sé nú talað um hvað þetta er góð líkamsrækt.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (23.11.): 0
  • Sl. sólarhring: 1
  • Sl. viku: 3
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 3
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband