Árinu eldri.

Ég á amml'í dag Wizard og er svakalega ánægð með það. - Fullt af fólki búið að óska mér til hamingju!!!SmileInLove.
Það er annars voðalega lítið varið í að eiga afmæli um verslunarmannahelgi. Kaffiboð er eiginlega alveg útúr myndinni. Systir mín og mágur kíktu samt á mig með son minn (sem er vinnumaður hjá þeim) og það var búið að setja á eina hnöllu fyrir þau í tilefni dagsins og baka pönnsur fyrir hann,- en það er hans uppáhald.

Nágranni minn flaggaði fyrir mér og fór svo í ferðalag,- treysti mér fyrir því að taka fánann niður í kvöld.

Ég verð aðeins að segja eina litla sögu - af því að ég er nú á þessum aldri... -
Þegar ég var að labba Laugaveginn um daginn, þá var margt sem flaug í gegnum hugann LoL.
Ég er með ónýtt hné og á alveg óskaplega erfitt með að ganga niður mikinn bratta. Þeir sem hafa gengið þarna vita að þar er nóg af slíkum aðstæðum... Ég er í einni brekkunni þegar ég finn að ég hef ekki fótfestu og byrja að renna, fyrir neðan var dálítil urð, en alls ekki mjög hátt fall. En ég varð smeyk, - fann vanmátt minn og sest á rassinn,- sem varð til þess að ég rann bara meira og ég finn að ég hef enga fótfestu. - Með aðstoð Steinunnar náði ég mér útúr þessum aðstæðum og komst niður klakklaust. En...
Ég fór að hugsa um það á eftir að ef ég hefði runnið áfram og kannski fótbrotnað þarna í urðinni, hvernig hefði þá gengið að koma mér til byggða!!!??? (ég veit,- djúp pæling...)
Ég sá fyrirsögnina fyrir mér í mogganum: "Kona á fimmtugsaldri fótbrotnaði skammt frá Hrafntinnuskeri og var sótt með þyrlu landhelgisgæslunnar!"  - Tilhugsunin var skelfileg og ég ákvað að slasa mig nú bara alllllllllls ekki í þessari ferð.
- Mér líður strax betur gagnvart þessu í dag, orðin 41 árs,- ég er miklu meira á fimmtugsaldri núna en í gær til dæmis.

En annars finnst mér flottara að hafa það eins og enskir segja það;

"I'm in my early fourties!"

Júlí 2008 151


Skermur

Skermur1
Langar að setja hérna eina mynd af honum Skerm mínum heitnum, sem tekin var fyrir tveimur árum. Á honum er Guðlaugur þá 10 ára.

Heimur þagnarinnar.

Vonandi lagast þetta hjá blogg-heiminum sem hrundi,- ég ætla allavega ekki að gera neitt og vona bara að þeir finni aftur glataðar skrár. Smile

Þegar við Steinunn vorum að labba Laugaveginn fyrir örskömmu síðan, þá voru nokkrir hópar okkur samstiga; gengu sömu dagleiðir,- hraðar eða hægar, gistu í sömu skálum og svo framvegis. Þar á meðal voru tvær þýskar konur sem voru heyrnarlausar.
Við reyndum að tala við þær og okkur þótti þær áhugaverðar; Hvað veldur því að tvær heyrnarlausar konur leggja í göngu um óbyggðir Íslands? Hvernig upplifa þær hálendið? Margir fara á fjöll til að upplifa þögn og frið, en þær eru trúlega alltaf í þögn!?! Held samt að þær hafi haft einhverja heyrn.
Okkur þótti líka merkilegt að við virtumst vera þær einu sem reyndum að tala við þær. Þarna voru nokkrir hópar af Þjóðverjum (landar þeirra) þeir yrtu aldrei á þær eða reyndu að tala við þær. Við sáum fólk gefa þeim auga, en enginn reyndi að nálgast þær, nema við. Það kom okkur líka pínulítið á óvart, hversu svakalega maður er mállaus að kunna ekki táknmál. Ekkert tungumál kemur í staðinn fyrir táknmálið. Við gátum talað ensku, sænsku, þýsku og skildum smá í frönsku en táknmálið skildum við ekki. Að lokum gat Steinunn aðeins talað við þær með því að skrifa á blað, en það er mjög hægfara samskiptamáti.

Ég velti því fyrir mér hvort þær hafi upplifað hálendi Íslands öðruvísi en heyrandi. Mér finnst hálendið reyndar alveg magnað og litadýrðin á þessari leið er mjög fjölbreytt. Fuglalíf var ekki mikið og mér finnst náttúrlega alveg skandall að það skuli vera búið að úthýsa blessaðri sauðkindinni þar sem einhversstaðar sprettur gras... Pinch 
En mér fannst aðeins vanta uppá þögnina,- þessa þögn sem var svo dásamleg á Hornströndum. Það var þó soldil flugumferð þarna yfir,- sennilega veiðieftirlitið eða bara einhverjir að njóta þess að fljúga um loftin blá og svo var verið að smíða hús við Álftavatn og þar voru bæði vörubílar og gröfur að störfum og setti smá mínus í frábæra náttúrufegurð þessa staðar.

Fyrir utan þessar heyrnarlausu konur, þá fannst okkur önnur persóna vera þarna á ferðinni sem átti líka alla okkar aðdáun. Hún var kínversk, búsett í Bandaríkjunum, lítil og nett eins og Kínverjar eru gjarnan og trítlaði þetta eins og ekkert væri. Hún var með lítinn bakpoka, enga göngustafi og nestið samanstóð af pringles og toblerone. Wink Hún fór miklu léttar með þessa gönguferð en margir hinna sem voru þar á ferð.

Verð bara að segja að mér finnst frábært þegar fólk ferðast á þennan hátt.


Ferðasögur.

Mig langar aðeins að segja frá ferðalögum mínum í sumar.
Ég var búin að tala um Skotland og Patreksfjörð en ég hef ferðast meira.

Fyrst fór ég með tjaldvagninn austur á Fljótsdalshérað. Fyrstu nóttina gistum við á Kirkjubæjarklaustri í algjörri blíðu og tímdum varla að fara þaðan. Stefnan var tekin á tjaldstæði í Lóni, en okkur leist ekki almennilega á þau og keyrðum því á Djúpavog. Þar er fínt að vera. Þá var líka stutt eftir að Tókastöðum rétt austan við Egilsstaði en þar höfðum við leigt hús á vegum KÍ. Ég get alveg hiklaust mælt með því húsi og þar fór mjög vel um okkur.Tókastaðir1 Þar er líka allt til alls. Toppurinn var þó á sunnudagsmorgninum þegar ég opnaði útihurðina og horfðist í augu við þrjú hreindýr á milli rólanna í u.þ.b. 50 metra fjarlægð. Fyrir neðan brekkuna var 15 dýra hjörð sem skokkaði léttilega yfir skurði og girðingar og lagðist til hvíldar nokkru frá bænum. Hreindýr1

Við fórum víða og skoðuðum margt. Við fórum t.d. á hestaleigu í Hallormsstaðaskógi Hestaleiga1 sem var mjög skemmtilegt,- gaman að ríða um skógargöturnar. Svo skoðuðum við Skriðuklaustur  og fórum í ævintýragöngu Skógarferð1 í Hallormsstaðaskógi á leiðinni til baka. Í fjörunni 

Við skoðuðum steinasafn Petru á Stöðvarfirði Steinasafn og margt fleira skemmtilegt í góðum félagsskap kunnugra heimamanna.
Þá voru frændfólk og vinir heimsóttir á Seyðisfirði í þokusúld, en annars vorum við mjög heppin með veður og nutum sólar og blíðu. Á heimleiðinni var svo siglt á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi innan um jakana. Júlí 2008 205 Það var mjög gaman.

Tveimur dögum síðar lögðum við Steinunn vinkona mín af stað Laugaveginn. Lögðum upp frá Landmannalaugum og enduðum í Þórsmörk fjórum dögum síðar. Ég veit ekki hvaða lukka er yfir mér með veður í ferðalögum. (Best að tala varlega samt). En þvílík blíða, algjörlega heiðskýrt og ekki mistur eða ský á nokkrum einasta fjallatind hvert sem litið var alla dagana. Það var að vísu gola og stundum allhvasst, en þar með vorum við líka með öllu lausar við flugu (ef hún er þá þarna). Það eru náttúrulega bara forréttindi að fá að ganga um þetta fallega land í svona veðri. Landmannalaugar 
Lagt af stð úr Landmannalaugum.
 Hrafntinnusker 
Hrafntinnusker. Við vorkenndum mjög þeim sem voru í tjaldi þessa nótt, enda var ísing á palli skálans um morguninn. Brrrr...
Álftavatn Horft að Álftavatni.  
Jökultungur Prílað niður Jökultungurnar - sem eru brattar!
Álftavatn 2 Svakaleg blíða við Álftavatn.

Andstæður 
Viðkvæm blóm, beljandi jökulfljót, hraun, sandar, melar, fjöll og jöklar. - Bara allt.
Markarfljótsgljúfur Maður er jafnsmár og blómin við svona hrikaleg gljúfur.
Nokkuð sprækar Nokkuð hressar við Markarfljótsgljúfur.
Þröngá
Við komnar yfir einu jökulána sem þarf að vaða og horfum hróðugar á þá sem eru að feta sig yfir straumþunga ána. Á Laugaveginum þarf að vaða 4 ár, þar af þessa einu jökulá, sem ekki sér til botns í og er mjög straumþung.

Ég verð að segja að í báðum þessum ferðum hafði ég á tilfinningunni að það væri ég og hinir útlendingarnir sem værum að skoða landið, því mestur hluti ferðamanna var af erlendu bergi brotinn (eins og stundum er svo listilega sagt í fjölmiðlum). Líklega spilar hækkandi bensínverð þarna eitthvað inní???

Ég var rétt dottin í símasamband í Þórsmörk þegar vinkona mín hringdi og spurði hvort ég væri til í smá útilegu á Kirkjubæjarklaustur daginn eftir. - Ég hélt það nú. Ég var þá búin að sitja í tvo tíma í Mörkinni, algjörlega búin að jafna mig eftir labbið og til í næsta ævintýri. Þannig að morguninn eftir var búið að skipta úr göngugír yfir í bílgír og stelpurnar og tíkin settar inní bíl og brunað af stað austur á bóginn. - Það varð líka mjög vel heppnað. Að vísu súld en útilegan varð líka svona hliðarútilega því við sváfum inni hjá systur vinkonu minnar en dætur okkar sváfu í tjaldvagninum Smile.
Þar hitti Píla mín aðra tík sem heitir því frumlega nafni; Píla. Það var satt að segja dálítið ruglingslegt þegar við báðar kölluðum Píla og þær horfðu á okkur hálf undrandi og vissu varla hvert þær áttu að snúa. Joyful Pílurnar Agnes var mjög hrifin af að knúsa tíkurnar,- ég leyfi mér að efast um að þær hafi verið jafn hrifnar af öllu þessu knúsi.


Í minningu um Skerm.

Fyrir þá sem ekki vita, þá snerist líf mitt algjörlega og fullkomlega um hross fyrstu 27 ár ævinnar. Ég vann við tamningar, þjálfun, sýningar og sölu. Átti orðið 30 hesta þegar mest var og talaði ekki um annað en hesta og helst ekki við aðra en hestamenn. (Tímar geta breyst...)

Ég var þeirrar gæfu aðnjótandi að eignast draumahestinn (Það er ekki gefið þó maður sé mikið í hestum). Hann var stór og grannvaxinn, rauðstjörnóttur glófextur ofsaviljugur klárhestur með miklu og rúmu tölti. Ég keppti nokkrum sinnum á honum með góðum árangri, ferðaðist víða og átti með honum mestu sælustundir lífs míns. Ég veit ekki hvort ég get lýst þeirri tilfinningu þegar maður situr á fullkomnum gæðingi á dunandi moldargötu, með kvöldsólina í andlitið og hraði hestsins lætur vindinn þjóta í hárinu. Maður og hestur verða eitt og manni finnst maður fljúga. Stundin er fullkomin, sælan algjör. Mann langar að öskra en tímir því ekki til að skemma ekki augnablikið.
- Þannig var Feykir.
Ég felldi hann fyrir tveimur árum síðan 28 vetra gamlan óbilaðan og ungan í anda. Vildi ekki að hann yrði fótafúinn og veikur og er hann jarðaður á góðum stað.

Það merkilega gerðist að ég eignaðist annan hest, allt öðru vísi, en sem fyllti alla mína drauma á annan hátt. (Ég nýt greinilega mikillar gæfu). Hann var jarpur, samanrekinn með mikið og sítt fax. Hafði endalaust úthald og vaggaði skemmtilega þegar hann gekk. Hann hafði mikinn kjark, óttaðist held ég ekkert og hafði mannsvit. Hann lærði að opna hesthúshurðina með tönnunum þegar hann sá að búið var að gefa á jötuna. Kom inn og byrjaði að éta. Hann var ekki mikið fyrir að flækjast um og vildi helst vera heima hjá sér. Notaði hann hvert tækifæri til að laumast framhjá þeim sem voru í fyrirstöðu og strauk úr nátthólfum ef þau voru ekki nógu trygg þegar verið var á ferðalögum. Vakti það litla hrifningu.

Fyrir fjórum árum síðan breyttust aðstæður mínar og ég hef varla farið á hestbak síðan. Skermur hefur því verið í hálfgerðu orlofi síðan ef undan er skilið eitt og hálft ár hjá systur minni. Í fyrravor lenti hann ofan í nýgröfnum skurði, en með öllu því afli sem hann hefur, hafði hann sig uppúr honum af eigin rammleik. Átökin urðu honum samt um megn og þrátt fyrir læknisaðgerðir, þá virtist eitthvað hafa bilað. Hann virtist ekki sjá almennilega og gekk bæði á girðingar og fólk.
-Eftir að hafa hugsað málin til hins ýtrasta sá ég að ég vildi ekki leggja á hann vanlíðan og ætlaði að fella hann næsta vetur,- leyfa honum að lifa sumarið. - Njóta síðustu ævidaganna og fá síðan að falla með sæmd og vera jarðaður við hlið Feykis.

Fyrir þremur dögum síðan var hringt í mig.
Skermur fannst dauður ofan í skurði.


- Ég náði ekki að kveðja hann.


Ferðalangar

Bara rétt að láta vita af því að ég er ekki dauð... Smile heldur sprell-alife. Var að koma úr DÁSAMLEGRI ferð af Austurlandinu (segi frá því seinna) og er að leggja af stað Laugaveginn (ekki þennan í Reykjavík) í fyrramálið.

Ég er bara hrikalega bissí og má ekkert vera að því að hanga í tölvunni, þannig að ef einhver saknar mín hérna, þá verður sá hinn sami að bíða oggulítið lengur.

Sjáumst.


Smá fréttir

Þetta eru blessunarlega annasamir dagar. Ég hef alltaf átt frekar erfitt með að þola aðgerðarleysi og eru mér langir og leiðinlegir dagar síðasta sumars í fersku minni, en þá beið ég eftir húsnæði vikum saman og hafði ekkert fyrir stafni.

Nú er öldin önnur og dagarnir varla nógu langir. Það er því ljóst að hér verður ekkert bloggað næstu dagana.

Verð samt að segja frá því að snillingarnir í BYKO seldu mér aðra Briggs&Stratton sláttuvél sem malar blíðlega hvenær sem ég toga í spottann og slær grasið af mikilli list. Sá galli er þó á þessari að það þarf eiginlega að raka eftir hana þó hún sé með poka en það er allt í lagi sossum.
En svona til að fyrirbyggja allan misskilning, þá eru þessar Briggs&Stratton vélar ekki áfastar samskonar sláttuvélum allar þrjár. Tvær þær fyrri hétu Partner en sú síðasta heitir Warrior,- það finnst mér vel við hæfi miðað við baráttuhuginn sem ég var búinn að safna mér upp áður en ég lagði í síðustu ferðina í BYKO Ninja. Sá baráttuandi var algjörlega óþarfur Smile .
- Ég fékk mér svo bara hjólbörur útá kaupin. LoL


Sumarfríið mitt...

Ó!!! Ég er að fara þarna austur eftir rúma viku Frown . Hvað er ég að fara útí???? Ætlaði að vera þar í bústað. Að vísu ekki uppá heiðunum, en samt...

Nei, nei, það verður orðið hlýtt og fínt þegar ég fer,- tek bara sólina með mér. Annars er varla orðin vanþörf á að kæla mann niður eftir allt þetta sólskin og hlýindi hér Sunnanlands Joyful.


mbl.is Varað við snjókomu og hálku
Tilkynna um óviðeigandi tengingu við frétt

Húsdýr ýmiskonar

Hér Sunnanlands er sólarsteik alla daga, enda eru sumir að breytast í kolamola. Cool
Það gleymdist að setja húslegu genin í blönduna þarna forðum þegar ég var búin til,- eða nei annars, hann tvíburabróðir minn tók þau öll  Wink. Hvar svo sem þau eru, þá hef ég þau ekki og það hvarflar bara ekki að mér að standa í einhverjum þrifum og tiltektum innanhúss þegar sólin skín.
Þar safnast nú upp í miklu magni miður skemmtileg húsdýr sem kallast flugur. Húsaflugur. Það er samt búið að eitra og ég stend með flugnaspaðann á lofti alla daga (þegar ég er inni...) en það sér ekki högg á vatni. Þeim líður greinilega illa í hitanum úti, fyrst þær hópast svona inn,- ætli maður geti ekki kennt þeim á ryksugu Woundering . - Af tvennu illu vil ég þó frekar flugur en kóngulær. Skrítið samt, því kóngulærnar eru nú oftast þar sem maður sér þær ekki, en flugurnar helst í eyranu á manni eða nefinu þegar maður reynir að sofa.

Það eru semsagt tvær ástæður fyrir því að ég er mest utandyra þessa dagana; húsflugur og almenn leti við heimilisstörf. Þess vegna er sólin notuð og liturinn eykst.

Ég hef tekið að mér að jarðvegsskipta í beði einu stóru hérna úti og þar hamast ég við að moka.
Svo stendur til að ég flytji í hús í þyrpingunni og þar er stærðar garður sem hefur ekki verið sleginn þetta árið. Ég fór því í BYKO og keypti mér sláttuvél Briggs&Stratton. Í stuttu máli sagt, þá fékk ég aðra í dag því sú fyrri virkar ekki og ég mun við fyrsta tækifæri fara með þær báðar og skila þeim,- ekki kaupa Briggs&Stratton sláttuvél,- þvílíkt mega-drasl.

Í næstu viku verður nýja húsið mitt kannski tilbúið til að taka við mér og mínum, og ég hlakka til. Annars í leiðinni; "ættingjar og vinir í sumarfríi sem ekkert hafa að gera; mig vantar aðstoð við flutninga bráðum " SmileHaloHeart


Ferðast og ferðast.

Í gærkvöldi lauk ferðalagi mínu og dætranna um sunnanverða Vestfirði... Nei, þetta er nú varla rétt orðað... Við vorum aðallega á Patreksfirði, en skoðuðum Rauðasand, Breiðuvík, Látravík og Bjargtanga, Kollsvík og síðan fórum við á Bíldudal og í Selárdal og að Uppsölum Gísla nokkurs Wink . Þetta er mjög lítill hluti sunnanverðra Vestfjarða og því finnst mér það of stórt til orða tekið að segja að við höfum skoðað þá alla að sunnanverðu.

Við hittum vinkonu mína og börnin hennar á Patreksfirði, en þaðan er hún ættuð og þóttist heimavön Smile. Hún var því leiðangursstjóri og sýndi okkur það markverðasta þarna í kring. Þetta er í raun frábær staður og náttúrufegurðin alveg mögnuð. Það er samt greinilegt að byggð er að dragast saman og mörg hús sem virðast standa auð á Patró.

Við skoðuðum flug og ferðasafnið á Hnjóti og það er safn í orðsins fyllstu merkingu. Þar mátti finna held ég bara ALLT sem tilheyrir gömlum dögum. Vestfirðir eru ægifagrir og allt þeirra umhverfi. Vegirnir eru hrikalegir en venjast ótrúlega vel þó maður sé alinn upp í rennisléttum Flóanum og súpi hveljur ef maður stígur uppá þúfu. Maður keyrði ýmist utan í fjallshlíðunum með hafið berjandi klettana fyrir neðan sig eða bara ofan á fjöllunum. Og þar var ekki mikinn gróður að hafa. Kindur eru á beit í flestum grastoppum og einn bóndinn bauðst að fyrra bragði til að skjóta tíkina mína. Þá hafði ég víst hleypt henni út óþarflega nálægt nokkrum skjátum, en ég sá þær bara ekki þarna í fjörunni sem við vorum akkúrat staddar í þá...

Mér er algjörlega óskiljanlegt hverjum datt í hug að senda börnin og unglingana í "betrun" vestur í Breiðuvík. Afskekktari stað held ég að varla sé hægt að finna. Hafi markmiðið verið að slíta tengsl við ættingjana og gera þeim erfitt fyrir að heimsækja börnin sín, þá er það viðhorf sem hefur algjörlega haldið þarna, en að það hafi verið mannbætandi er mér hulið markmið. En það er fallegt þar. Að það sé nóg fyrir unglinga sem líður illa leyfi ég mér að efast um.

Í Kollsvík er gömul verstöð og fjárhús í flæðarmálinu, hálf komin á kaf í hvítan sand. - Hvernig stendur annars á því að allar fjörur þarna eru með hvítan sand en ekki svartan??? Þar fóru flestir úr sokkum og skóm og óðu í dásamlegum læk sem rann þar í sandinum.

Toppurinn var síðan 17.júní hátíðarhöldin á Bíldudal. Í fullkominni blíðu og glampandi sólskini fór fólk fylktu liði á eftir tveimur drengjum í gallabuxum sem báru þjóðfánann á undan hersingunni sem gekk á eftir og söng í mjög svo ósamstilltum samsöng; "Hæ, hó, jibbýjey og jibbýjey, það er kominn sautjándi júní" ásamt fleiri lögum. Ekki einu sinni tromma á undan. - Það var FULLKOMIÐ!!!! Þegar sveitarstjórinn, presturinn og fjallkonan höfðu lokið sínum lestrum, steig síðan hljómsveit staðarins á svið. Bar hún það frumlega nafn; Júgursmyrsl. Fyrsta lagið sem þeir fluttu hét Kærulaus, var eftir þá sjálfa og byrjaði einhvernveginn svona:

Ég pissa í vaskinn
skeini mig ekki
þvæ mér seinna
ég er kærulaus....

Spurning hvort það hæfir þessum degi, en þarna og þá fannst mér það alveg geggjað.
Þeir enduðu síðan á að syngja Working class hero! og það gerðu þeir alveg snilldarvel.

Læt fylgja með nokkrar myndir: Patreksfjörður 127

Patreksfjörður 091 Patreksfjörður 098

Patreksfjörður 088 Patreksfjörður 058

Patreksfjörður 123 Patreksfjörður 163


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Nóv. 2024
S M Þ M F F L
          1 2
3 4 5 6 7 8 9
10 11 12 13 14 15 16
17 18 19 20 21 22 23
24 25 26 27 28 29 30

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (22.11.): 1
  • Sl. sólarhring: 2
  • Sl. viku: 4
  • Frá upphafi: 26041

Annað

  • Innlit í dag: 1
  • Innlit sl. viku: 4
  • Gestir í dag: 1
  • IP-tölur í dag: 1

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband