20.5.2008 | 13:58
íslensk tunga
Ég er að velta fyrir mér málfari okkar svona almennt. Daglegt spjall, sem unglingarnir eru oft sagðir móta, er það gott eða slæmt?
Alveg er ég viss um að mörgum finnst alveg skelfing að hlusta á málfar okkar eins og það er í dag, enda er málið alltaf að taka breytingum. Mér finnst það reyndar ekki vera með öllu slæmt. Mér finnst það bera þess merki að það sé lifandi en ekki steindautt eins og latínan til dæmis. Þannig hafa máltæki fest sig í sessi sem kannski voru alveg fáránleg fyrst þegar við heyrðum þau (eða forfeður okkar).
Ég nota mjög mikið bæði soldið og dáldið. Það þykir ábyggilega ekki flott, enda er mér bent á að þetta sé ekki íslenska ef þessu bregður fyrir í einhverju sem ég er að skrifa og senda frá mér.
Þegar ég var í KHÍ fyrir örfáum árum síðan heyrðist mikið, sérstaklega hjá íþróttafréttamönnum: "þeir eru að spila góðan bolta" og kennarar mínir í KHÍ gátu alveg tekið flog yfir þessari hörmung. Þá sögðu nemendur mínir; "Ég er bara ekki að fatta þetta!" í annarri hverri setningu og það pirraði mig ekki neitt. Ekki nema þegar ég var nýkomin úr fyrirlestri hjá fyrrnefndum kennurum KHÍ. - og svo náttúrulega að þeir skyldu ekki fatta það sem ég var að kenna þeim...
Núna tröllríður öllu: "Það var sagt mér!" fullorðnir hlæja að þessu og finnst þetta svo fáránlegt að það taki engu tali. Það sé svo fáránlegt að það þurfi jafnvel ekki að hafa áhyggjur af því. En nú er mér hætt að lítast á, því þessi setningaskipan er notuð í mjög miklum mæli. Miklu meira en ég hélt:
"Það var hent steini í hann!"
"Það var strýtt henni!"
"Það var látið fá honum þetta!" Í alvöru, þetta heyrði ég líka í vetur.
Ég meira að segja stranda stundum þegar ég ætla að leiðrétta þetta, því ég sé að börnin skilja ekki hvað er vitlaust við setninguna, þau eru orðin svo vön að heyra þetta svona.
Haldið þið að þegar kynslóðin, sem elst upp við þetta málfar, fer að ala upp sín börn, þá verði það orðið eðlilegt?
Tja,- maður spyr sig! (Samt var ekki spurt mig.)
Bloggar | Breytt s.d. kl. 14:35 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
19.5.2008 | 17:32
Hundaeigendur
Mér finnst svo skrýtið hvað sumir hundeigendur eru blindir á hundana sína.
Ég þekki þetta mál reyndar ekki;
http://mbl.is/mm/frettir/innlent/2008/05/19/hagsmuna_hundeiganda_ekki_gaett/
...en þarna kemur samt fram að hundurinn hafi verið óskráður og eigandinn ekki með leyfi fyrir honum. Hvernig stendur þá á því að hundeigandinn er í rétti gagnvart dómstólum þegar hundurinn bítur barn?
Ég á hund sjálf og geri mér grein fyrir að þetta er dýr sem hefur eðli til að verja sig og sína. Ég hef alltaf verið varkár með hana innanum ókunnuga og sérstaklega nálægt börnum. Ég get orðið mjög pirruð á því þegar fólk mætir með hundana sína í skrúðgöngur og þá sérstaklega á gamlárskvöld eða þrettándanum, þar sem flugeldasýning er væntanleg. Svo eru þessi grey vælandi af hræðslu eða spenning yfir öllum hinum hundunum. Þegar eitthvert barnið rekst síðan utan í þá eða ætlar að klappa þeim, eru þeirra fyrstu viðbrögð að bíta frá sér í vörn.
Hve oft hafið þið ekki séð manneskju með hund, nálægt er barn sem er hrætt við hundinn og eigandinn segir: "Þetta er allt í lagi, hann gerir aldrei neitt!"
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
17.5.2008 | 10:03
Og talandi um tré
Það virðist vera algjörlega nauðsynlegt að troða niður trjám á hvern auðan blett á landinu og ég verð að tjá mig um það fyrst ég er byrjuð að tala um landið og landeyðingu. Ég er áhugamanneskja um landgræðslu og að Ísland fjúki ekki á haf út. Mér þykja tré falleg og hef plantað þeim mörgum víða. Þó sennilega flestum á Snæfoksstöðum í Grímsnesi. (Þá er ég ekki að tala um flest trén sem eru þar, heldur flest trén sem ég hef sett niður...)
Ég hins vegar er ekki alveg sátt við að allsstaðar þurfi að vera tré. Ég veit að þeir ferðamenn sem koma til landsins heillast af hinni fallegu náttúru. Það er af því að þeir sjá hana.
Það er ekkert gaman að hafa fallegt landslag og sjá það ekki fyrir trjám. Eitt mesta umhverfisslys sem ég veit um eru trén sem hefur verið plantað við þjóðveg 1 fyrir framan Skógafoss.
Það er mér ógleymanlegt þegar ég sá þennan foss frá þjóðveginum í fyrsta skipti. Þvílík sjón og þvílíkur foss. Þegar blessaðar litlu sætu hríslurnar sem búið er að planta þarna verða orðnar stórar, þá mun þessi fallegi foss ekki sjást frá þjóðveginum. Ekki fá fólk til að hægja á sér og beygja að Skógum og skoða fossinn betur.
Tré eru falleg. Þau veita skjól og binda koltvísýring. En þau eiga ekki allsstaðar rétt á sér.
Hemjum okkur í skógræktinni. Það má líka rækta landið með öðrum aðferðum.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
17.5.2008 | 09:55
Blessuð sauðkindin
Ég er einlægur aðdáandi íslensku sauðkindarinnar. Finnst hún falleg og skemmtileg og gaman að umgangast hana og fást við hennar sauðþráa eðli.
Hún hefur í gegnum tíðina veitt mér ótaldar gleðistundir. Hvað er notalegra en að setjast niður og fylgjast með kindum tyggja iðagræna töðu úr garða? Hljóðið minnir á regndropa á bárujárnsþaki. Þá er algjörlega geggjað að vera úti á fjöllum að eltast við rollur í heila viku og reka þær til byggða. Sama hvernig veðrið er. Ég hef lent í snjókomu, þoku, úrhellisrigningu og sól og blíðu við smalamennskur og það er bara dúndur. - En það er orðið langt síðan.
Í gærkvöldi fékk ég að endurlifa samskipti við sauðkindina og það verður að segjast að þau voru mjög náin. - Ég "lenti" í burðarhjálp. Vinafólk mitt á kindur og hefur gengið á ýmsu í sauðburðinum hjá þeim í vor og ekki allt jákvætt. Ég var að skila dóttur þeirra af mér eftir fimleikamót í Mosfellsbænum í gær og þá var allt á fullu í fjárhúsinu. Þegar ljóst var að tvær ærnar gátu ekki komið lömbunum hjálparlaust frá sér og vinkona mín var ekki alveg örugg á að snúa lömbunum í rétta átt, fékk ég að spreyta mig og rifja upp gamla takta úr sveitinni heima. OOOOHHH!!! Þetta var alveg frábært. Það getur verið flókið og vandasamt að snúa lömbum inní rollum, en ég náði þeim öllum út. Eitt kom bara með hausinn og þurfti ég að ýta því inn aftur og ná í fæturna með. Annað kom bara með fæturna og þurfti ég að ná í hausinn niður með síðunni. Það þriðja var með hausinn einhversstaðar ofan í og var nokkuð maus að láta hann fylgja en það hafðist og þau komu öll lifandi og spræk út. - Það veitir manni ánægju að standa í svona verkum og maður fer sæll að sofa. Hverju skiptir líka þó klukkan sé að verða hálf tvö um nótt? Það er farið að birta.
Í leiðinni verð ég að lýsa yfir þeirri skoðun minni að ég mótmæli því algjörlega að sauðkindin hafi ein og hjálparlaust eytt íslenskri náttúru í heild sinni til fjalla eins og sumir halda fram.
Vissulega á hún sinn þátt í því en þeir sem hafa ferðast um hálendi Íslands hafa tekið eftir því að vatnsrof eftir leysingar snemma á vorin hefur gífurlegan eyðileggingarmátt. Vatn og vindar hafa átt mestan þátt í landeyðingunni að mínu áliti. Kindin kemur síðan og nuddar sér utan í rofabörðin og er kennt um alltsaman. En henni finnast tré gómsæt og þar getur maður orðið soldið pirraður á henni...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (2)
13.4.2008 | 18:11
Egill og félagar
Ég ætla ekki að tala um þennan ótrúlega snjó sem hefur kyngt niður í nótt, heldur mjög svo ánægjulega ferð í Landnámssetrið í Borgarnesi þar sem hlustað var á flutning Benedikts Erlingssonar á Egils sögu Skallagrímssonar.
Hún var frábær.
Við fórum fyrst á Egilssýninguna sem er í safninu og það var ágætt, því þá þekkti maður algjörlega söguna áður en farið var að hlusta á Benedikt segja hana. Farið er í gegnum söguna með hljóðleiðsögn og menn og munir skoðaðir, en þeir eru fyrst og fremst settir saman úr afgöngum. Gömlum brotnum stólum, afsöguðum trjábútum og svo framvegis.
Flutningur Benedikts, eða frásögn hans á Eglu er virkilega skemmtileg. Hann tengir hana snilldarlega við nútímann og áhorfendur veltast um af hlátri, þó svo að Egilssaga geti langt því frá talist gamansaga. Þannig vísar hann fólki um sveitina á landnámstíð með Húsasmiðjuna og röraverksmiðjuna á staðnum, bæina merkta með skiltum og notar frasa úr talmáli unglinga þegar hann flytur samræður fornmannanna .
Maðurinn er bara sögumaður af Guðs náð og fangar áheyrendur algjörlega, það er eins og maður sé þátttakandi í atburðum landnámssögunnar, en einnig fastur í nútímanum.
Ef þið hafið ekki farið að sjá þessa sýningu, þá endilega drífið ykkur áður en hann hættir með hana,- hún er geggjuð.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (1)
7.4.2008 | 14:04
Bíllinn minn
Ég á skoda octavia bíl sem ég er mjög ánægð með. Eyðir litlu, kemst ýmislegt, þýður og þægilegur á malbiki en svolítið lágur til kviðarins, þannig að á malarvegum slétta ég miðjuna ef hún er uppúr.
Eitt hefur þó valdið mér áhyggjum og kvíða með hann, en það er að þegar ég aflæsi honum með fjarstýringunni, opna eina hurð og set hann ekki í gang, þá læsir hann sér aftur eftir smá stund. Þar sem ég er með lítið barn, þá þarf ég oft að festa það í stólinn sinn áður en ég næ að opna aðra hurð og ræsa bílinn og hann hefur stundum læst sér á meðan ég er að binda hana. Ég hef því passað það mjög vel að sleppa aldrei lyklinum fyrr en ég er komin undir stýri.
Það er algjörlega útilokað að opna bílinn nema með því að taka lykilinn úr svissinum (hafi ég ekki startað) og opna með fjarstýringunni. Ég get ekki opnað með tökkunum á hurðinni og ekki með fjarstýringunni í lyklinum á meðan hann er í svissinum. - Eiginlega skil ég ekki til hvers þessi tækni er svona... .
Á laugardaginn lendi ég svo í því sem ég hafði óttast mest; bíllinn læsist með barninu bundnu í bílstólnum og lyklinum í svissinum.
Ég hringdi í 112, fékk lögregluna á staðinn, sem gat ekki opnað og með barnið grátandi hinum megin við rúðuna, sagðist ég ekki geta sótt varalykilinn 35 km leið aðra leiðina. Með aðstoð góðra einstaklinga náðum við að teipa rúðuna farþegamegin og brjóta hana með hamri.
Það var ekki laust við að maður titraði pínulítið þegar ég fékk stelpuna í fangið. Skil ekki þessa tækni, vonandi er hægt að aftengja þetta,- ég er allavega hætt að nota fjarstýringuna. Langar mest að fá mér annan bíl .
Takk þið sem hjálpuðuð mér .
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (6)
2.4.2008 | 17:29
Sögur
Á vinnustað mínum þessa vikuna er kona frá Bandaríkjunum (North-Dakota),- reyndar tvær, því vinkona hennar kom með henni,- sem er háskólamenntaður "story-teller" = sagnaþulur. Nú er hún hætt að kenna og farin að ferðast um og kynna þetta í öðrum skólum og löndum. Við könnumst við "sögu-aðferðina" frá Skotlandi, þar byggist kennslan á því að námsefnið er kynnt nemendum með sögu. Síðan eru unnin verkefni útfrá henni og oft eru nemendur líka látnir búa til sögur um eitthvað sem tengist námsefninu. Þetta er oft mjög skemmtilegt. Í þessu tilfelli er konan aftur á móti að segja sögur og kenna börnunum að segja sögur og viðhalda þannig sagnahefðinni sem hefur gengið mann fram af manni í gegnum aldirnar.
Þessi kona er búin að fara í allar bekkjardeildir frá 1. uppí 10. bekk og segja nemendum sögur,- á amerísku. Hún er mest á unglingastiginu, en hefur heimsótt okkur í yngri bekkjunum líka. Það verð ég að segja að það var gaman að fylgjast með henni. Að sjálfsögðu varð ég að túlka fyrir krakkana, en hún náði þeim samt með sér, stóreygum og fullum af áhuga og gerandi hreyfingarnar með henni. Og alltaf horfðu þau á hana,- hún var að segja söguna, þó svo að þau skildu fátt af því sem hún segði og ég bergmálaði einhversstaðar fyrir aftan, þá var það samt hún sem sagði söguna og hún sem átti athygli þeirra allra.
Hún sagði líka að sögur væru það sem alltaf höfðuðu til allra,- líka þeirra sem eru límdir fyrir framan tölvur og sjónvörp. Ef þeir heyrðu sögu, þá væru þeir strax komnir með fulla athygli. Mér fannst þetta nokkuð áhugavert, en það fékk mig líka til að hugsa um svipinn á börnunum mínum þegar ég segi þeim sögur frá því ég sjálf var lítil. Það þarf ekki svo merkilegar sögur til að fanga athygli barna. Þeim finnst sögur af okkur þegar við vorum á þeirra aldri mjög merkilegar þó okkur finnist það kannski ekki. Og ég man eftir ófáum ferðalögum þar sem ég sagði þeim sögur ofan í sögur og þau báðu mig um nýja sögu um leið og önnur kláraðist. Ferðalagið varð einhvernveginn miklu styttra líka.
...
Ég er annars búin að fylla bílinn af bensíni Ætli þeir lækki svo ekki meira á morgun!!!?
Bloggar | Breytt 5.4.2008 kl. 08:38 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
25.3.2008 | 12:55
Páskabingóið
Trúleysingjar ákváðu að hafa bingó á páskadag; "af því að það er bannað skv. lögum og hefðum í kristinni trú!" Mér heyrðist allavega að það væri ástæðan fyrir því þegar ég hlustaði á manninn sem svaraði fyrirspurnum í útvarpinu. Hann spurði af hverju sett væru lög skv. kristinni trú en ekki einhverri annarri trú.
Ég veit sossum ekki svarið við því. Kannski af því að meiri hluti þjóðarinnar tilheyrir þjóðkirkjunni!?
En mér finnst að fólk eigi að bera virðingu fyrir trú annarra. (Þá væru kannski færri styrjaldir). Að spila bingó á páskadag,- af því að það er bannað, finnst mér barnalegt og í rauninni bara til að reyna að skapa leiðindi.
Með fullri virðingu fyrir bingóinu sem íþrótt...
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
25.3.2008 | 12:04
Kuldalegt.
Æ, mér finnst þetta vor-þema svolítið kuldalegt , snjóhvítt og algjörlega laust við hlýlega liti... - Að vísu er skítkalt úti líka, en það er skemmtilega bjart orðið og maður á að njóta þess að vorið sé í nánd.
Ég er að hugsa um að sleppa því að hafa vor-þema og hafa eitthvað annað þangað til sumarið gengur í garð. Verð samt að taka smá val-tíma í að breyta því...
Bloggar | Breytt s.d. kl. 12:05 | Slóð | Facebook | Athugasemdir (0)
23.3.2008 | 11:10
Vor í lofti.
Gleðilegan páskadag.
Á skírdag var vorjafndægur. Þá var nóttin jafn löng og dagurinn, svo nú er dagurinn orðin lengri en nóttin. Til hamingju með það líka . Það birtir og hlýnar og vorið og sumarið er framundan. Ég ákvað því að taka til á síðunni minni,- henda út vetrar-þemanu og setja vor-þema í staðinn.
Svo er bara að drífa sig í sólbað með páskaeggið.
Bloggar | Slóð | Facebook | Athugasemdir (3)
Um bloggið
Hulda Brynjólfsdóttir
Tenglar
Áhugaverðar síður
- ABC-Barnahjálpin Hægt að styrkja barn mánaðarlega.
- Heiðmar Heiðmar er ljóðamaður góður og bloggar af snilld.
- Kvennakórinn Ljósbrá Heimasíða kvennakórsins Ljósbrá.
- Kærleiksvefur Júlla Notaleg og hlýleg síða um mörg og misjöfn mannleg málefni.
- Vinnustaðurinn minn Heimasíða skólans sem ég vinn við.
- Húgó sáli Húgó hefur svo margt gáfulegt fram að færa.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar