Færsluflokkur: Bloggar

íþróttir

Mikið er maður ánægður með að börnin manns skuli stunda íþróttir. Þessir krakkar eru að vaxa mér yfir höfuð og eru svo öflug og hraust að það er dásamlegt að fylgjast með þeim. Full af orku og heilbrigðri skynsemi,- kannski ekki allt úr íþróttunum...

En þó maður vilji gjarnan styðja þau og geri það, þá getur verið ansi þreytandi að eyða helgi eftir helgi á hliðarlínunni á handboltavelli þar sem ekki  er gert ráð fyrir því að neinn standi og fylgist með. Eftir 4 klukkustunda stöðu með tveggja ára iðandi orm á handleggnum er maður líka orðinn ansi fúinn til fótanna. Ég verð samt að segja að ég var mjög ánægð með þá ákvörðun að standa þarna og styðja soninn ásamt tveimur öðrum foreldrum (í hans liði) í gær. Þó ég skilji fullkomlega að allir hinir foreldrarnir ákveði að standa ekki þarna og hvetja, þá virkilega þurfa þeir á því að halda strákarnir. Þeir eru nú bara 11 ára!

Og það verður með ánægju sem ég fer og horfi á dóttur mína stökkva á trampólíni á morgun í fimleikakeppninni sem hún er að taka þátt í. Verst að ég missti af frumraun sonarins á borðtennismóti í morgunCrying.

En ég held að íþróttir séu góður undirbúningur fyrir lífið,- enda margsannað að þær komi að einhverju leyti í veg fyrir að fólk misstígi sig síðar meir,- þá meina ég ekki bókstaflega.


Vinnukaflinn...

Lifum lífinu hægar; kaflinn um vinnu... Smile 

Við eigum ekki að vinna hægar,- heldur minna. = SNILLD!

Þetta er í raun og veru algjörlega rökrétt. Við vinnum oft betur undir álagi og þegar mikið er að gera hjá okkur. En viðvarandi álag gengur á andlegt og líkamlegt þrek sem veldur því að vinnuframlag okkar verður lakara. Við erum slöpp og þreytt og leggjum okkur ekki fram af fullum krafti. Ef við vinnum minna,- vinnum við meira. Það er að segja við vinnum á meðan við erum í vinnunni.

Einhver rannsókn var gerð einhverntímann,- sem ég las brot úr síðastliðið haust,- hvar fram kom að ákveðinn tími vinnandi fólks (Íslendinga) fari í einkamál þeirra á vinnutíma. Kíkja í tölvupóstinn, hringja og redda einhverju t.d. læknistíma,- skreppa í bankann og svo framvegis. Vinnuveitendur gera ráð fyrir þessu og þetta er ekki litið hornauga nema kannski á afgreiðslukassa í Bónus Angry. Við yrðum sennilega ekki hrifin ef kassadrengurinn (daman) væri að panta viðtal hjá lækni á meðan hann týndi vörurnar okkar í gegnum "píparann".

En er það ekki mjög trúleg staðreynd að ef við ynnum minna,- þá meina ég styttri vinnudag, þá myndum við leggja okkur meira fram í vinnunni og njóta þess síðan að vera í fríi á meðan við erum í fríi? - Nei, ekki alveg, því við kunnum ekki að vera í fríi. Við tökum vinnuna með okkur heim, vinnum í tölvunni á kvöldin í gegnum netið og svo framvegis.

 Þannig að við verðum víst fyrst að læra að slappa af áður en við förum að vinna minna.

 


Það eru forréttindi að eiga hund

Ég á hundtík eina sem heitir Píla. Píla Þarna er hún með mér í göngu í sumar.

Það eru veruleg forréttindi að eiga svona dýr. Nú er ég nýkomin úr smá göngu með hana og það varð til þess að ég tók eftir því dásamlega veðri sem er úti akkúrat núna. Þvílík blíða!!!

Það er svo oft sem veðrið svona seint á kvöldin er alveg himneskt, en það fer yfirleitt framhjá manni af því að maður er fastur yfir einhverju sem maður heldur að sé merkilegt,- t.d. sjónvarpinu, sem maður heldur og vonar að bjóði uppá eitthvað sem er á horfandi, en er oftast innihaldslítið. Nei, þá er nú betra að klæða sig í úlpu og fá sér hressingargöngu með hundspottið.

Að göngu lokinni er síðan snilld að kíkja í bók.

Ég er alveg til í að mæla með þessari sem ég er að lesa núna; Lifum lífinu hægar. Þar erum við hvött til að hægja á okkur og njóta lífsins og galdurinn felst í því að njóta. Borða hægt og njóta matarins,- gefa sér tíma til að njóta ásta, - vinna ... - ég er að lesa þann kafla núna,- læt ykkur vita hvað sagt er um það,- eitthvað um að njóta frítímans aðallega sýnist mér Cool.

Það er komið helgarfrí,- njótum þess.

 


Alltaf að læra

Hvernig í veröldinni setur maður tenglalista inná þessa bloggsíðu þannig að hún sjáist þegar maður fer þar inn?

Ég er að bögglast við að koma slóðinni inná síðu kvennakórsins hérna til hliðar, en það eina sem sést er ef ég set hana inn sem tónlist... Pinch     Jú, jú við framköllum tónlist en þetta er samt ekki tónlistarsíða heldur bloggsíða kórsins og því finnst mér þetta ekki passa alveg. Þið þarna lífsreynda fólk úti.- vill einhver vera svo vænn að leiðbeina mér um það hvernig maður getur vísað á áhugaverða tengla þannig að það sjáist. Shocking

 


Að hafa fyrir hlutunum

Ég hef heyrt fleiri en einn tala um það og er sömu skoðunar að fólk sem þarf lítið að hafa fyrir lífinu,- og þá er ég kannski mest að tala um nám í skóla og þegar það er að vaxa úr grasi,- það staðni og endi í meðalstöðu í þjóðfélaginu þegar það fer á vinnumarkaðinn. En hinir sem þurfa að leggja eitthvað á sig og berjast, læra að velgengni kemur ekki af sjálfu sér og nær oft lengra. En ætli þetta sé vísindalega sannað?

Munið þið eftir krökkunum sem áttu frekar erfitt með að læra, lögðu sig alla fram, lásu og reiknuðu og fengu samt lægri einkunnir en margir sem ekkert lærðu (að manni fannst)? Krakkarnir sem urðu jafnvel fyrir aðkasti frá öðrum krökkum. Þessir krakkar sem þurftu að hafa fyrir því að læra eða vera með. Hvað er þetta fólk að gera í dag? Maður heyrir ansi marga vera í einhverri framkvæmdastjórastöðu, forstjórar, bankastjórar eða eitthvað álíka.

Stefán Karl t.d. hefur sagt okkur það að hann hafi orðið fyrir aðkasti í skóla og þurfti að hafa ansi mikið fyrir því að vera gjaldgengur í skólanum. Hvar er hann í dag? Hann er þekktur leikari í Ameríku -Heimsfrægur í Latabæ...- (ekki að það sé kannski draumur sérhvers manns...) en þið vitið hvað ég meina.

Getur verið að þeir sem þurfa lítið að hafa fyrir hlutunum lendi frekar undir í samfélaginu þegar fram í sækir? Þeir kunna ekki að taka mótlæti og kunna ekki að hafa fyrir því að láta hlutina ganga upp. Gefast strax upp ef á móti blæs. Ég er svolítið á þeirri skoðun amk.

Þessi stefna að láta börn ekki bera ábyrgð á neinu,- og þá er ég ekki að tala um foreldra, heldur stjórnvöld og samþykktir þeirra um lög og reglugerðir; að börn mega ekki vinna neitt nema kannski sópa í hálftíma á dag fyrr en þau eru orðin 16 vetra. Og þá jafnvel þurfa þau að vinna einhverja létta vinnu. En það eru mörg börn sem eru tilbúin til að vinna eitthvað miklu fyrr og hér áður fyrr í sveitunum báru börnin ábyrgð á einhverjum verkum í sveitinni um leið og þau höfðu vit til, þannig að þau fundu að þau skiptu einhverju máli.

Þessi krakkagrey sem eru full af orku og vilja til að leggja sitt af mörkum mæla göturnar og verða þannig auðveld fórnarlömb þeirra sem eru að veiða þessar sálir í fíkniefnaheiminum. - Guði sé lof fyrir íþróttirnar, tónlistarskólana, play-station og internetið... Þau hafa þá einhverja afþreyingu!!! En er hún holl? Íþróttirnar að sjálfsögðu og tónlistin líka,- en það er bara svo dýrt að margir foreldrar sem eru ekki í bankastjórastöðu hafa ekki efni á að halda þessu öllu úti. Hvað þá þegar börnin eru orðin fleiri en eitt.

Æ, ég velti þessu nú bara fyrir mér. En það er ekki eins og ég hafi neina lausn á þessu máli, því það er víst ekki mikið atvinnuleysi í þessu landi og þar að auki eiga börnin líka að vera í skóla,- halló,- ég er nú að kenna þeimErrm og þá er ekki mikill tími aflögu til að leyfa þeim að vera í einhverju léttu starfi,- eða hvað? En hvað með sumartímann? Unglingavinnan? Af hverju mega þau ekki vinna meira en hálfan daginn? Mér finnst alveg mega sópa meira af glerbrotum, týna fleiri fífla og planta fleiri blómum en gert er og er ekki tilvalið að leyfa þeim það? Jafnvel aðeins yngri en þau eru í dag þegar þau byrja í unglingavinnunni?

Spyr sá sem ekki veit.

 

 

 

 


Bloggið

Það verður nú að segjast að ég er ekki þessi afkastamikli bloggari sem allir aðrir virðast vera. Ég er alvarlega að hugsa um að hætta formlega sem "blogger".

Fara að gera eitthvað annað gáfulegra. - Eða þannig.

Annars gekk vel að syngja um daginn og framundan eru jólatónleikar sem við erum að æfa fyrir. Þeir fara fram á Heimalandi 7.des. Sem er brúðkaupsdagur foreldra minna,- þau verða ábyggilega þarna að hlusta á mig,- þó þau séu bæði látin.

Við erum að æfa alveg svakalega falleg lög og það er vel þess virði að gera sér ferð og hlusta. Þarna verða fleiri kórar og áreiðanlegt að stundin verður notaleg. Þannig að þeir sem lesa þetta taka daginn frá.


Jólin, jólin

Smá viðbót við lesninguna um daginn...

Framundan eru jólin og aðventan. Njótum aðventunnar, slökum á og eyðum góðum tíma í það sem við ætlum að gera fyrir jólin.

Vissuð þið að það væri hægt að togna í jóga?

Og að niðurstöður breskrar rannsóknar sýnir fram á að fleiri umferðaslys verða af völdum svefnleysis bílstjóra, en áfengis eða vímuefnaneyslu? - Ég vissi það ekki...


Hraðinn

Þessi bók: "Lifum lífinu hægar" eftir einhvern kall... er alveg dúndur. Samt veltir maður fyrir sér hvort það sé ekki bara fólk sem gerir sér grein fyrir þessum hlutum sem tekur svona bækur á bókasöfnum.

Nú virðist vera að ég hafi gert mér grein fyrir þeim mikla sannleik að maður eigi að taka lífinu með ró og gefa sér tíma til að njóta þess sem það hefur að bjóða. - Tel mig reyndar hafa vitað þetta lengi, en... ég sem sagt tók þessa bók á bókasafninu og er byrjuð að lesa. Samt veit ég þetta, ég er bara að dýpka skilning minn á þessu og fá öflugri staðfestingu á því að ég hafi rétt fyrir mér. Er því þá ekki eins farið með fleira fólk,- að þeir sem vita þetta og þurfa síður á því að halda að fræðast um það, þeir lesa fróðleikinn? Hinir sem lifa á botni og gefa sér ekki tíma til að njóta, þeir gefa sér heldur ekki tíma til að lesa þetta? Am I right?

En...

... bókin byrjar á því að telja upp alla velmegunarsjúkdóma samtímans, sem leiðir til þess að fólk bugast á einn eða annan hátt. Vöðvabólga, bakverkir etc. (ég hef sko töluvert af þeim...)

En hvar byrjum við?

"Drífðu þig!" "Haltu áfram!" "Ekki slóra!"  Eru þetta ekki setningar sem við notum við börnin okkar á hverjum degi?

Hvað erum við að innprenta þeim? Að maður fái ekkert nema halda vel áfram,- eða hvað.

Einn nemandi minn sagði við mig um daginn (í 7.bekk). "Alveg magnað með þessa kennara, þeir eru alltaf að reka á eftir manni, maður á alltaf að drífa sig að þessu og hinu og klára þetta og hitt. Maður fær aldrei almennilegan tíma til að vinna verkefnin!" (Fékk þessa lesningu þegar við vorum í útikennslu og ég kallaði á þá að koma til mín Smile ,- þá langaði hins vegar að vera lengur á milli trjánna)

Ég veit að kennarar kannast samt við þetta, því við erum alltaf að reka á eftir. Ef einhver er lengi að vinna og nær ekki að klára verkefnin á sama tíma og hinir, þá er reynt að ýta á eftir honum.

Í búðinni verður að drífa sig áfram í röðinni, svo sá næsti þurfi ekki að bíða lengi. Ef verð vantar á vöru eða einhver vandamál koma upp á hjá kúnnanum á undan, þannig að röðin þarf að bíða, þá lítur viðkomandi afsakandi á mann og segir: "þetta tekur vonandi fljótt af!"

Er einhver þarna úti sem hefur ekki verið flautað á ef hann gleymir sér þegar græna ljósið kemur í umferðinni?

Þannig að pressan er alls staðar. Það á að halda áfram, keyra, keyra...

Í bókinni eru tölvurnar teknar fyrir, hraðinn á að markaðsetja ný tölvuforrit og tölvur er svo mikill að það gefst ekki tími til að fullprófa forritið. Síðan er að koma aftur og aftur upp villur eða eitthvað sem veldur því að tölvan "krassar" eða hvað þetta er kallað. Það kostar fyrirtækin milljarða (ekki að það sjái högg á vatni...) sem hægt væri að forðast með því að gefa þeim meiri tíma til að vera prófuð, en nei, það má ekki því þá verður keppinauturinn á undan.

Það má ekki missa af neinu.

 Gott fólk - Hægjum á okkur!

 Njótum lífsins! = boðskapur dagsins í dag. Cool

 


Að þora...

Fyrst maður er nú farinn að tjá sig um hvernig eigi að lifa í núinu...

Fyrir nokkuð mörgum árum síðan tók ég þá ákvörðun að alltaf öðru hvoru myndi ég stíga einu skrefi lengra en ég þyrði.

Málið var að ég var frekar feimin og átti erfitt með að tala og segja frá fyrir framan aðra. Svo þurfti ég að standa upp og flytja smá mál og ég skalf, nötraði, svitnaði og var eldrauð á meðan sú framkvæmd fór fram. - En það hafðist.

Ég ákvað því að næst skyldi ég fara ótilneydd. Þetta gekk lengi brösulega og ég þurfti oft að hafa flest allt skrifað,- líka hvenær ég ætlaði að anda. Blush En svo smátt og smátt komst ég yfir þennann kvíða og þessa feimni og ég hef staðið fyrir framan fullt af fólki og meira að segja fengið það til að hlægja að aulabröndurum. Shocking Svo las ég þessa setningu einhversstaðar; að maður næði meiri þroska með því að stíga öðru hvoru skrefi lengra en maður þyrði og þá sá ég að í þessu tilfelli gerði ég það.

Síðan hef ég gert þetta markvisst öðru hvoru.

Núna til dæmis er ég byrjuð að syngja í kór. Whistling =Kvennakórnum Ljósbrá sem syngur fagurlega í Rangárþingi og víðar ef óskað er eftir. Mér var reyndar talin trú um það sem barni að ég hefði ekki söngrödd og ætti að láta það eiga sig að syngja mikið svo aðrir heyrðu, en nú er svo komið að ég er hætt að trúa þessu og byrjuð að syngja og ætla meira að segja að syngja með þessum blessaða kór á laugardaginn á Hvolsvelli. Og ég veit að ég á eftir að standa mig ge'gt vel.

 Þetta er allavega alveg rosalega gaman og vel þess virði að hafa ákveðið að vera með, þó ég hafi eiginlega ekki þorað því.

 


Að lifa lífinu hægar

Var á bókasafninu í gær að leita að bók um eldfjöll og þá stökk útúr hillunni (fannst mér) bók sem heitir þessu ágæta nafni. Hún fjallar um blaðamann sem finnur hversu miklu meiri lífsfylling fæst út úr því að taka lífinu með ró, heldur en að vera alltaf að flýta sér.

Ég man þegar ég fyrir nokkrum árum var að vinna hálfan daginn. Þá voru eldri börnin mín ung (vel á minnst, dóttir mín er 10 ára í dag Wizard). ó mæ god hvað þau stækka hratt.

Þá var ég semsagt í svona asakasti. Ég kláraði vinnudaginn, sótti þau á leikskólann og var alltaf að flýta mér; dreif mig í búðina á leiðinni heim, þau áttu sko að bíða í bílnum, því það tæki alltof langan tíma að taka þau með inn og svo var keyrt heim eins hratt og hægt var og öllum sem voru fyrir var sagt til syndanna, því þeir töfðu mig og voru fyrir mér,- ég var að flýta mér....

...Svo þegar ég kom heim, gaf ég þeim að borða og svo var ....... ekkert. Það var svosem ekkert sem ég var að flýta mér til að fara að gera. Þau lögðu sig jafnvel eftir matinn, stundum fórum við á róló eða eitthvað annað. En sem betur fer áttaði ég mig á öðrum vetri (minnir mig) á því hvað ég var að gera. Við breyttum til og fórum að flýta okkur hægt. Við stoppuðum jafnvel í bakaríinu á leiðinni heim og fengum okkur brauð og kókómjólk þar. Ég gaf endalausa sénsa í umferðinni, keyrði rólega og stoppaði fyrir ÖLLUM gangandi vegfarendum. Spjallaði jafnvel við börnin á leiðinni og benti þeim á hvernig skýin voru, fuglarnir og svo framvegis. Þau fengu alltaf að koma með mér í búðina,- ég var bara ekki að flýta mér.

Það var ekki langur tími sem leið þangað til ég fann að mér leið orðið betur. Ég var jákvæðari.

Er það ekki þetta sem verið er að tala um þegar lifað er í núinu???

Ég ætla að lesa þessa bók sem ég fann þarna í gær.


« Fyrri síða | Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Sept. 2025
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (11.9.): 0
  • Sl. sólarhring:
  • Sl. viku: 1
  • Frá upphafi: 0

Annað

  • Innlit í dag: 0
  • Innlit sl. viku: 1
  • Gestir í dag: 0
  • IP-tölur í dag: 0

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband