30.7.2008 | 22:28
Heimur þagnarinnar.
Vonandi lagast þetta hjá blogg-heiminum sem hrundi,- ég ætla allavega ekki að gera neitt og vona bara að þeir finni aftur glataðar skrár.
Þegar við Steinunn vorum að labba Laugaveginn fyrir örskömmu síðan, þá voru nokkrir hópar okkur samstiga; gengu sömu dagleiðir,- hraðar eða hægar, gistu í sömu skálum og svo framvegis. Þar á meðal voru tvær þýskar konur sem voru heyrnarlausar.
Við reyndum að tala við þær og okkur þótti þær áhugaverðar; Hvað veldur því að tvær heyrnarlausar konur leggja í göngu um óbyggðir Íslands? Hvernig upplifa þær hálendið? Margir fara á fjöll til að upplifa þögn og frið, en þær eru trúlega alltaf í þögn!?! Held samt að þær hafi haft einhverja heyrn.
Okkur þótti líka merkilegt að við virtumst vera þær einu sem reyndum að tala við þær. Þarna voru nokkrir hópar af Þjóðverjum (landar þeirra) þeir yrtu aldrei á þær eða reyndu að tala við þær. Við sáum fólk gefa þeim auga, en enginn reyndi að nálgast þær, nema við. Það kom okkur líka pínulítið á óvart, hversu svakalega maður er mállaus að kunna ekki táknmál. Ekkert tungumál kemur í staðinn fyrir táknmálið. Við gátum talað ensku, sænsku, þýsku og skildum smá í frönsku en táknmálið skildum við ekki. Að lokum gat Steinunn aðeins talað við þær með því að skrifa á blað, en það er mjög hægfara samskiptamáti.
Ég velti því fyrir mér hvort þær hafi upplifað hálendi Íslands öðruvísi en heyrandi. Mér finnst hálendið reyndar alveg magnað og litadýrðin á þessari leið er mjög fjölbreytt. Fuglalíf var ekki mikið og mér finnst náttúrlega alveg skandall að það skuli vera búið að úthýsa blessaðri sauðkindinni þar sem einhversstaðar sprettur gras...
En mér fannst aðeins vanta uppá þögnina,- þessa þögn sem var svo dásamleg á Hornströndum. Það var þó soldil flugumferð þarna yfir,- sennilega veiðieftirlitið eða bara einhverjir að njóta þess að fljúga um loftin blá og svo var verið að smíða hús við Álftavatn og þar voru bæði vörubílar og gröfur að störfum og setti smá mínus í frábæra náttúrufegurð þessa staðar.
Fyrir utan þessar heyrnarlausu konur, þá fannst okkur önnur persóna vera þarna á ferðinni sem átti líka alla okkar aðdáun. Hún var kínversk, búsett í Bandaríkjunum, lítil og nett eins og Kínverjar eru gjarnan og trítlaði þetta eins og ekkert væri. Hún var með lítinn bakpoka, enga göngustafi og nestið samanstóð af pringles og toblerone. Hún fór miklu léttar með þessa gönguferð en margir hinna sem voru þar á ferð.
Verð bara að segja að mér finnst frábært þegar fólk ferðast á þennan hátt.
Um bloggið
Hulda Brynjólfsdóttir
Tenglar
Áhugaverðar síður
- ABC-Barnahjálpin Hægt að styrkja barn mánaðarlega.
- Heiðmar Heiðmar er ljóðamaður góður og bloggar af snilld.
- Kvennakórinn Ljósbrá Heimasíða kvennakórsins Ljósbrá.
- Kærleiksvefur Júlla Notaleg og hlýleg síða um mörg og misjöfn mannleg málefni.
- Vinnustaðurinn minn Heimasíða skólans sem ég vinn við.
- Húgó sáli Húgó hefur svo margt gáfulegt fram að færa.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.