26.7.2008 | 21:56
Ferðasögur.
Mig langar aðeins að segja frá ferðalögum mínum í sumar.
Ég var búin að tala um Skotland og Patreksfjörð en ég hef ferðast meira.
Fyrst fór ég með tjaldvagninn austur á Fljótsdalshérað. Fyrstu nóttina gistum við á Kirkjubæjarklaustri í algjörri blíðu og tímdum varla að fara þaðan. Stefnan var tekin á tjaldstæði í Lóni, en okkur leist ekki almennilega á þau og keyrðum því á Djúpavog. Þar er fínt að vera. Þá var líka stutt eftir að Tókastöðum rétt austan við Egilsstaði en þar höfðum við leigt hús á vegum KÍ. Ég get alveg hiklaust mælt með því húsi og þar fór mjög vel um okkur. Þar er líka allt til alls. Toppurinn var þó á sunnudagsmorgninum þegar ég opnaði útihurðina og horfðist í augu við þrjú hreindýr á milli rólanna í u.þ.b. 50 metra fjarlægð. Fyrir neðan brekkuna var 15 dýra hjörð sem skokkaði léttilega yfir skurði og girðingar og lagðist til hvíldar nokkru frá bænum.
Við fórum víða og skoðuðum margt. Við fórum t.d. á hestaleigu í Hallormsstaðaskógi sem var mjög skemmtilegt,- gaman að ríða um skógargöturnar. Svo skoðuðum við Skriðuklaustur og fórum í ævintýragöngu í Hallormsstaðaskógi á leiðinni til baka.
Við skoðuðum steinasafn Petru á Stöðvarfirði og margt fleira skemmtilegt í góðum félagsskap kunnugra heimamanna.
Þá voru frændfólk og vinir heimsóttir á Seyðisfirði í þokusúld, en annars vorum við mjög heppin með veður og nutum sólar og blíðu. Á heimleiðinni var svo siglt á Jökulsárlóni á Breiðamerkursandi innan um jakana. Það var mjög gaman.
Tveimur dögum síðar lögðum við Steinunn vinkona mín af stað Laugaveginn. Lögðum upp frá Landmannalaugum og enduðum í Þórsmörk fjórum dögum síðar. Ég veit ekki hvaða lukka er yfir mér með veður í ferðalögum. (Best að tala varlega samt). En þvílík blíða, algjörlega heiðskýrt og ekki mistur eða ský á nokkrum einasta fjallatind hvert sem litið var alla dagana. Það var að vísu gola og stundum allhvasst, en þar með vorum við líka með öllu lausar við flugu (ef hún er þá þarna). Það eru náttúrulega bara forréttindi að fá að ganga um þetta fallega land í svona veðri.
Lagt af stð úr Landmannalaugum.
Hrafntinnusker. Við vorkenndum mjög þeim sem voru í tjaldi þessa nótt, enda var ísing á palli skálans um morguninn. Brrrr...
Horft að Álftavatni.
Prílað niður Jökultungurnar - sem eru brattar!
Svakaleg blíða við Álftavatn.
Viðkvæm blóm, beljandi jökulfljót, hraun, sandar, melar, fjöll og jöklar. - Bara allt.
Maður er jafnsmár og blómin við svona hrikaleg gljúfur.
Nokkuð hressar við Markarfljótsgljúfur.
Við komnar yfir einu jökulána sem þarf að vaða og horfum hróðugar á þá sem eru að feta sig yfir straumþunga ána. Á Laugaveginum þarf að vaða 4 ár, þar af þessa einu jökulá, sem ekki sér til botns í og er mjög straumþung.
Ég verð að segja að í báðum þessum ferðum hafði ég á tilfinningunni að það væri ég og hinir útlendingarnir sem værum að skoða landið, því mestur hluti ferðamanna var af erlendu bergi brotinn (eins og stundum er svo listilega sagt í fjölmiðlum). Líklega spilar hækkandi bensínverð þarna eitthvað inní???
Ég var rétt dottin í símasamband í Þórsmörk þegar vinkona mín hringdi og spurði hvort ég væri til í smá útilegu á Kirkjubæjarklaustur daginn eftir. - Ég hélt það nú. Ég var þá búin að sitja í tvo tíma í Mörkinni, algjörlega búin að jafna mig eftir labbið og til í næsta ævintýri. Þannig að morguninn eftir var búið að skipta úr göngugír yfir í bílgír og stelpurnar og tíkin settar inní bíl og brunað af stað austur á bóginn. - Það varð líka mjög vel heppnað. Að vísu súld en útilegan varð líka svona hliðarútilega því við sváfum inni hjá systur vinkonu minnar en dætur okkar sváfu í tjaldvagninum .
Þar hitti Píla mín aðra tík sem heitir því frumlega nafni; Píla. Það var satt að segja dálítið ruglingslegt þegar við báðar kölluðum Píla og þær horfðu á okkur hálf undrandi og vissu varla hvert þær áttu að snúa. Agnes var mjög hrifin af að knúsa tíkurnar,- ég leyfi mér að efast um að þær hafi verið jafn hrifnar af öllu þessu knúsi.
Um bloggið
Hulda Brynjólfsdóttir
Tenglar
Áhugaverðar síður
- ABC-Barnahjálpin Hægt að styrkja barn mánaðarlega.
- Heiðmar Heiðmar er ljóðamaður góður og bloggar af snilld.
- Kvennakórinn Ljósbrá Heimasíða kvennakórsins Ljósbrá.
- Kærleiksvefur Júlla Notaleg og hlýleg síða um mörg og misjöfn mannleg málefni.
- Vinnustaðurinn minn Heimasíða skólans sem ég vinn við.
- Húgó sáli Húgó hefur svo margt gáfulegt fram að færa.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (22.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Frábært!
Vigdís Stefánsdóttir, 27.7.2008 kl. 08:44
Skemmtilegar ferðasögur : Greinilega aldrei heima !
Sjöfn Marvinsdóttir (IP-tala skráð) 27.7.2008 kl. 20:25
He he... Maður á ekkert að vera mikið heima hjá sér. Lífið er til að njóta þess á meðan við erum á lífi.
Hulda Brynjólfsdóttir, 30.7.2008 kl. 22:33
Flottur pistill.
kv.
Lói
Eyjólfur Sturlaugsson, 1.8.2008 kl. 23:23
Takk frændi,- þetta hefur líka verið flottur tími
Hulda Brynjólfsdóttir, 2.8.2008 kl. 19:01
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.