17.5.2008 | 09:55
Blessuð sauðkindin
Ég er einlægur aðdáandi íslensku sauðkindarinnar. Finnst hún falleg og skemmtileg og gaman að umgangast hana og fást við hennar sauðþráa eðli.
Hún hefur í gegnum tíðina veitt mér ótaldar gleðistundir. Hvað er notalegra en að setjast niður og fylgjast með kindum tyggja iðagræna töðu úr garða? Hljóðið minnir á regndropa á bárujárnsþaki. Þá er algjörlega geggjað að vera úti á fjöllum að eltast við rollur í heila viku og reka þær til byggða. Sama hvernig veðrið er. Ég hef lent í snjókomu, þoku, úrhellisrigningu og sól og blíðu við smalamennskur og það er bara dúndur. - En það er orðið langt síðan.
Í gærkvöldi fékk ég að endurlifa samskipti við sauðkindina og það verður að segjast að þau voru mjög náin. - Ég "lenti" í burðarhjálp. Vinafólk mitt á kindur og hefur gengið á ýmsu í sauðburðinum hjá þeim í vor og ekki allt jákvætt. Ég var að skila dóttur þeirra af mér eftir fimleikamót í Mosfellsbænum í gær og þá var allt á fullu í fjárhúsinu. Þegar ljóst var að tvær ærnar gátu ekki komið lömbunum hjálparlaust frá sér og vinkona mín var ekki alveg örugg á að snúa lömbunum í rétta átt, fékk ég að spreyta mig og rifja upp gamla takta úr sveitinni heima. OOOOHHH!!! Þetta var alveg frábært. Það getur verið flókið og vandasamt að snúa lömbum inní rollum, en ég náði þeim öllum út. Eitt kom bara með hausinn og þurfti ég að ýta því inn aftur og ná í fæturna með. Annað kom bara með fæturna og þurfti ég að ná í hausinn niður með síðunni. Það þriðja var með hausinn einhversstaðar ofan í og var nokkuð maus að láta hann fylgja en það hafðist og þau komu öll lifandi og spræk út. - Það veitir manni ánægju að standa í svona verkum og maður fer sæll að sofa. Hverju skiptir líka þó klukkan sé að verða hálf tvö um nótt? Það er farið að birta.
Í leiðinni verð ég að lýsa yfir þeirri skoðun minni að ég mótmæli því algjörlega að sauðkindin hafi ein og hjálparlaust eytt íslenskri náttúru í heild sinni til fjalla eins og sumir halda fram.
Vissulega á hún sinn þátt í því en þeir sem hafa ferðast um hálendi Íslands hafa tekið eftir því að vatnsrof eftir leysingar snemma á vorin hefur gífurlegan eyðileggingarmátt. Vatn og vindar hafa átt mestan þátt í landeyðingunni að mínu áliti. Kindin kemur síðan og nuddar sér utan í rofabörðin og er kennt um alltsaman. En henni finnast tré gómsæt og þar getur maður orðið soldið pirraður á henni...
Um bloggið
Hulda Brynjólfsdóttir
Tenglar
Áhugaverðar síður
- ABC-Barnahjálpin Hægt að styrkja barn mánaðarlega.
- Heiðmar Heiðmar er ljóðamaður góður og bloggar af snilld.
- Kvennakórinn Ljósbrá Heimasíða kvennakórsins Ljósbrá.
- Kærleiksvefur Júlla Notaleg og hlýleg síða um mörg og misjöfn mannleg málefni.
- Vinnustaðurinn minn Heimasíða skólans sem ég vinn við.
- Húgó sáli Húgó hefur svo margt gáfulegt fram að færa.
Myndaalbúm
Heimsóknir
Flettingar
- Í dag (23.11.): 0
- Sl. sólarhring: 1
- Sl. viku: 3
- Frá upphafi: 0
Annað
- Innlit í dag: 0
- Innlit sl. viku: 3
- Gestir í dag: 0
- IP-tölur í dag: 0
Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar
Athugasemdir
Halló. Gaman að sjá að þú ert farin að blogga aftur. Hún Ella Jóna sem ég kenndi með á Flúðum var/er að gera tilraun með að láta rollurnar ganga í skóginum heima hjá henni. Sú tilraun gafst vel svo það var engin raun.
Gísli B. Gunnars. (IP-tala skráð) 18.5.2008 kl. 09:21
Takk fyrir Gísli minn, það er gaman að heyra að einhver nennir að lesa þetta bull mitt.
En hvað hana Ellu Jónu varðar, þá eru trén þar nokkuð mörg.
Hulda Brynjólfsdóttir, 19.5.2008 kl. 17:36
Bæta við athugasemd [Innskráning]
Ekki er lengur hægt að skrifa athugasemdir við færsluna, þar sem tímamörk á athugasemdir eru liðin.