Kveðja

Það má heita að ég hafi ekki litið hér inn síðan um áramót.

Ástæðan er fyrst og fremst sú að ég nota Facebook og hef ekki mikinn tíma aflögu til að vera á öðrum stöðum. Var samt að hugsa um að loka þessari blessuðu bloggsíðu sem ég sinni hvort eð er illa og ekki neitt.

En það er kannski óþarfi, kannski má hún bara standa óhreyfð. Það er aldrei að vita nema einhvern tíma gefist tími til að tjá sig um eitthvað sem þarf meira pláss en takmarkað rými facebook leyfir. Þannig að ég ætla að leyfa þessari síðu að standa áfram.

Það er samt alveg ljóst að fyrst ég var ekki hérna öllum stundum á meðan ég lá á hliðinni með bakverki í 3 vikur samfellt og gat ekkert gert nema verið í tölvunni, þá er harla ólíklegt að ég verði hérna daglega.

Samt ...

Who knows?!


Hugsanir

Ég ætlaði reyndar að setja þetta hér inn fyrir nokkrum dögum... en ég ætla ekki að hætta við, þó þetta eigi kannski ekki best við á fyrsta degi ársins, jólin eru ekki búin og við eigum að njóta þeirra allt til enda.

Séra Halldóra, prestur í Rangárþingi ytra og Ásahrepp flytur oft mjög góðar ræður í messum sínum. Í jólamessunni í Haga á annan í jólum talaði hún um hugarfarið sem fylgir jólunum, hvað við leggjum í þau, venjur og siði, og mig langar svo að setja minn skilning á orðum hennar hér inn.

Maður einn hafði misst konuna sína og vinur hans var hjá honum rétt fyrir jólin. Þeir voru að ræða það hve erfiður tími jólin væru oft fyrir þá sem hefðu misst náinn ástvin. Hefðirnar minntu á hinn horfna og söknuðurinn gerði oft meira vart við sig á þeim tíma en öðrum. Ekkillinn sagði þá að það væri reyndar rétt, en sömuleiðis hefði hann aldrei meiri þörf fyrir jólin en einmitt nú, því þau færðu honum gleði og frið og á því þyrfti hann að halda akkúrat núna.
Í framhaldi af því sagði hún að vissulega værum við vanaföst og héldum í hefðir sem við hefðum skapað okkur í gegnum árin, en samt sem áður væri þetta ekki bara hefðir, því hvert eitt og einasta atvik sem við gerðum fyrir og um jólin gerðum við útaf því að okkur þætti það við hæfi. T.d. að skrifa jólakortin, gera hreint og svo framvegis.

Það sem mér fannst mest um vert í þessari ræðu er einmitt þetta; við höfum okkar siði og venjur og við gerum það af ákveðnu hugarfari. Ég t.d. sendi jólakort og það mörg fyrir hver einustu jól. Nú þegar ég þurfti að velja og hafna hvað af því venjulega sem ég geri fyrir jólin ég yrði að sleppa, þá kom ALLS EKKI til greina að sleppa jólakortunum. Þegar ég skrifa á kortin hugsa ég til þeirra sem ég er að skrifa og rifja upp einhverjar ánægjulegar minningar sem tengist viðkomandi, sendi honum mynd, kannski ekki, svona kort er akkúrat fyrir þennan aðila á meðan það hentar alls ekki þessum. Ég veit að máttur hugans er mikill og ég er sannfærð um að þessar jákvæðu hugsanir skila sér til viðtakandans, allavega þegar hann les kortið. Ég reyni líka alltaf að skrifa eitthvað meira en gleðileg jól inní þau og gera þau svolítið persónuleg.
Á sama hátt finnst mér hátíðleg stund þegar við setjumst ég og krakkarnir í kringum kortakörfuna og lesum kortin frá vinum okkar á aðfangadag þegar möndlugrauturinn hefur verið vaskaður upp. Hvert kort vekur upp aðrar minningar um viðkomandi og aftur eru hlýjar hugsanir sendar til vina og vandamanna. Einstöku sinnum hendir það að ég sé að ég hef gleymt einhverjum, en það gerist ekki oft.

Við erum venjur og siðir.
Mér þykja kortin mikilvæg og skrifaði þau með hléum um leið og ég gat farið að sitja upprétt.
Pakkar eru líka mikilvægir til þeirra sem mér þykir vænt um,- náði að redda þeim.
Heimabakstur finnst mér mikilvægur,- það finn ég núna þessi jólin sem ég náði ekki að baka neitt. Jú, maður getur verið án þess, en ég sakna þess samt að vera bara með búðarkökur.
Þrifin eru kannski minnst mikilvæg,- en mér finnst samt voðalega gott að hafa hreint í kringum mig þegar jólin ganga í garð, það fann ég núna þegar ég gat illa gert það sjálf. Þá er ég ekki að tala um inní skápunum...
Þannig að venjur okkar og siðir eru til einhvers, þeir eru til að gleðja okkur og aðra, veita okkur frið og ánægju. Jólin eru sá tími sem flestir siðir eru hafðir í heiðri og það veitir okkur gleði að hitta fjölskyldu og vini.
Þeir sem hafa misst einhvern finna líka gleði á jólunum, þó það sé stundum erfiðara.

Ræðan hennar Halldóru var frábær.

Söngur kórsins þótti líka góður Wink

Gleðilega jólarest.


Þodláksmessa

Þá er Þorláksmessa að renna sitt skeið. Mér finnst þetta alltaf svolítið flottur dagur. Þá klárar maður að þrífa húsið, skreytir jólatréð og stingur pökkunum undir það. Borðar skötu (þeir sem hana vilja) - mér finnst hún alveg geggjuð með hamsatólg og rófum, - mmmm. Sé aðeins eftir að hafa ekki fengið mér pínulítið meira. Hefði kannski átt að gera eins og konan á Hrafnistu sem fékk að taka með sér nesti Cool ...
Á þessum degi fyrir ári síðan ferðaðist ég um Laugaveginn á tveimur jafnfljótum og hlustaði á ýmsa söngvara, fékk mér kaffi á kaffihúsi, keypti eina eða tvær auka jólagjafir og naut þess að vera með stóru systur minni... já,- eða litlu... hún er sko minni, þó hún sé eldri... Það var alveg frábært.
Ég ætlaði svo sannarlega að endurtaka leikinn þetta árið, en bak og fætur hamla för. Núna er ég reyndar ósköp fegin, því það er slagveðursrigning hérna og ekki mjög jólalegt og ég er alveg sannfærð um að þannig er það líka í Reykjavík... og ef einhver hefur áhuga á að leiðrétta það, þá má sá hinn sami bara sleppa því, mér líður mjög vel með að trúa þessu svona.

Húsið mitt er alveg óskaplega jólalegt, tréð er skreytt, pakkarnir kúra þarna undir grænum greinum. Tréð var reyndar hoggið á Snæfoksstöðum af börnunum og föður þeirra á laugardaginn var. Mér fannst alveg óskaplega sárt að missa af þeirri ferð. En það er svo margt sem ég missi af þessi jólin útaf heilsufarinu að ég er um það bil að venjast því. Börnin misstu þó allavega ekki af því og það er fyrir mestu.

Ég er tilbúin í jólin. Held ég sé búin að öllu nema fara með nokkra pakka sem verða afhentir á morgun. Og því segi ég:

Kæru lesendur; Guð gefi ykkur öllum gleðileg jól og friðsæld í hjarta. Munum að setja það mikilvægasta í forgang,- fólkið sem okkur þykir vænt um.
Farsælt komandi ár.


Ófærðin

Á mbl.is las ég rétt í þessu tvær fréttir sem eru hvor á eftir annarri. Önnur er sett inn kl. 10:07 (uþb) og segir frá því að skíðasvæðið í Bláfjöllum sé opið. Hin er kl. 10:17 (uþb) og segir að Hellisheiði sé enn lokuð.

Ég hélt endilega að það væri nokkuð stutt þarna á milli, en auðvitað er sitthvað skíði og bílar, kannski má bara skíða yfir Hellisheiðina???


Sjaldan er ein báran stök.

Ég er svona manneskja sem þarf alltaf að gera allt aðeins meira en gengur og gerist. Mér nægir t.d. ekki að vera með brjósklos, ég þarf að vera með skrið í hryggnum líka, mér dugar ekki að vera með ónýtt bak, heldur verður fóturinn allur og þá sér í lagi hnéð að vera bilað líka,- reyndar hefur það háð mér í 20 ár, en ef ég hugsa til baka, þá hefur bakið reyndar gert það líka. Maður bara venst við sumt og lærir að lifa með ótrúlegustu hlutum og ég hef bara vanist því að finna alltaf einhversstaðar til,- það er bara eitthvað sem er þarna, verkur hér, smá hölt, já, já, það  venst.

Núna er ég t.d. með þetta bæði yfir mér og þarf að endurskoða líf mitt svolítið. Ég held reyndar að svona veikindi séu til þess að maður hægi aðeins á sér og endurskoði lífið. Eitthvað finnst þeim sem ræður yfir mér að ég sé ekki að sinna því sem skildi, því nú er sjónvarpið mitt dottið út. Það er bara snjór á öllum stöðvum. Ég veit ekki hvort það er loftnetið eða eitthvað annað og treysti mér nú eiginlega ekki upp á þak til að gá að því hvort það sé dottið á hliðina eða eitthvað álíka. Ég fer bara í tölvuna í staðinn.
Reyndar er mér svolítið mikið illt í hnénu núna og fætinum. Læknirinn minn heldur að dofinn sem ég hef í vinstri fótlegg sé kominn til að vera, ég ætla ekki að trúa því alveg strax. Stundum fer svona til baka. En bakið er ágætt, ég finn lítið til í því.

En ég ætla að hlusta á þetta alltsaman núna og einbeita mér að endurskoðun.
Athuga hvað ég geti gert betur.


Umhleypingar

Þetta er nú meira... Skiptist á að vera alauð jörð eftir slagveðursrigningu eða alhvít jörð eftir éljagang og snjókomu. Og rokið í nótt.
Húsið mitt blístraði!!
Það hvein svo í vindskeiðum og þaki að það blístraði,- það er ekkert sérstaklega gott að sofa við slík hljóð.

Stekkjastaur kom víst til byggða í nótt í þessu líka veðrinu, ekki skrítið að honum hafi yfirsést eitthvað...  ég fékk allavega ekki neitt í minn skó.

En hvort það var hann sem færði þvottasnúrurnar mínar lengst út í móa skal ég nú ekki alveg segja um, ég gruna annan hrekkjalóm um það...

... þennan sama og hélt fyrir mér vöku með blístrinu... Smile


Af læknum

...og þá er ég ekki að segja frá læknum sem rennur, heldur læknum sem maður talar við.

Ég heyrði í tveimur í gær, annan hitti ég, hinn talaði ég við í síma. Í rauninni voru bæði samtölin ánægjuleg. Sá sem skoðaði á mér hnéð sagði að það væri bara flott og þyrfti líklega ekki mikið til að laga það, en ég þyrfti í segulómun til að skoða það betur (ekki gátu þeir nú gert það þegar þeir ómuðu bakið...). Hann vill samt ekkert gera fyrr en bakið er orðið betra og þar með heyrði ég í hinum lækninum,- þessum sem sér um bakið á mér.

Hann var alveg óskaplega ánægður að ég skuli vera orðin verkjaminni og finni ekki fyrir lömun í neinum mikilvægum líkamshluta Frown... það var semsagt hætta á því...
Ég á semsagt að geta unnið sjálf á þessum brjóskbita sem er að flækjast laus í hryggnum á mér við hliðina á þessu skriði og liðþófanum sem pokar út í loftið. Gleðilegt.
Og nú er ég að vinna í því. Ég má labba meira og núna úti líka, fara í sund þegar ég treysti mér, bara ekki gera neitt sem veldur sársauka.

Mér finnst þetta bara alveg óskaplega stór sigur, miðað við það að eiga að liggja á hægri hliðinni, kyrr eins og flattur þorskur á steini og láta þjóna mér við hvert verk!
Mein Gott, það var erfitt.

Þeir segja að lífið byrji um fertugt. Ólræt,- mitt er að byrja aftur og aftur og ég er fourty-oneSideways.


Skakkt númer.

Finnst ykkur ekki dásamlegt þegar síminn hringir rétt fyrir 4 á nóttunni og ung drafandi rödd segir: "Fyrirgefðu skakkt númer!" - Alveg minn tebolli Angry.

Sérstaklega þegar maður hrekkur upp með dynjandi hjartslátt og nær sér ekki niður aftur næstu klukkustundirnar.
Reyndar var þetta ekki alslæmt, því ég upplifði fallega nótt. Það rigndi í allan gærdag, en nú var farið að snjóa. Algjört logn og snjórinn flaut til jarðar í fallegum flygsum (ekki samt hundslappadrífa,- elska það orð yfir snjókomu Smile. Það var algjör kyrrð, ekkert hljóð heyrðist og snjórinn dempaði andardrátt heimsins. Svalur gustur barst inn um gluggann en samt ekki, því það var alveg logn og úti svartamyrkur.
Það var ekki hægt annað en njóta.
Rétt áður en ég fór aftur undir sæng, sá ég hund sitja undir ljósastaurnum úti og horfa á mig. Efast samt um að hann hafi séð mig, því fyrir utan jólaseríurnar í gluggunum var allt slökkt. Hann bara sat þarna, grafkyrr, við horfðumst í augu smá stund og svo fór ég og skildi hann eftir. Ég hef ekki hugmynd um hvað hann vildi, en hann var fallegur.

Hann var farinn þegar ég fór á stjá seinna- á kristilegum tíma altsvo. Þá henti ég brauðmolum á sólpallinn og fékk kærkomna gesti í mat sem sungu fyrir mig á meðan þeir borðuðu. Algjör krútt þessir snjótittlingar þegar þeir skoppa hinum megin við glerið sem maður situr við og ef maður hreyfir sig ekkert, þá fljúga þeir ekki burt. Tína í sig molana, rífast stundum smávegis en eru annars nokkuð góðir vinir.

Ég velti því samt alltaf fyrir mér af hverju fuglar fljúga aldrei á hvern annan þegar þeir eru svona margir saman. Ég meina þeir fljúga á gluggarúður, hvaða umferðarreglur gilda í háloftunum,
I wonder.


Piparkökur

Anna Guðrún (11 ára) og vinkona hennar (12 ára) ákváðu að rétta mér hjálparhönd við jólabaksturinn. Þeim var tilkynnt að ég gæti ekki gert handtak vegna bakverkja, þær yrðu að vera sjálfbjarga.

- Ekki málið! Smile

Svo bökuðu þær piparkökur.

Þær voru varla komnar úr ofninum þegar átti að búa til glassúr.
Augnablik sagði ég, en það var ekki við það komandi. Kökurnar bornar út á hlað til að kæla þær svo hægt væri að skreyta - eða aðallega smakka.- held ég Happy

Eftir smá stund er kallað: "mamma, þett'er svo þunnt!!!"
Ég fór fram til þeirra og þá voru þær með gult, rautt og grænt vatn fljótandi í 3 skálum og ponsulítinn flórsykur í hverri. Aðstoðar var þörf. Því mesta af vatninu var hellt úr og flórsykri bætt í, síðan hrærðu þær í hverri skálinni og nú var Agnes (3 ára) komin til aðstoðar og fékk eina skál að hræra í. Þær voru síðan bornar á eldhúsborðið og raðað í kringum kökurnar.

ÚPPPS!! - heyrist þá úr eldhúsinu.
Ég stökk af stað til að athuga hvað væri að,- svona eins og bakveikt fólk stekkur af stað... Frown... og við mér blasti stórkostleg sjón:

Agnes stóð fyrir neðan stólinn sem hún hafði staðið á, með skálina fyrir neðan sig, gulan glassúr lekandi niður úr hárinu og eiginlega öllu sem í kringum hana var, þar með talið innréttingin og eldhúsgólfið...Pinch.

Þið bjargið þessu stelpur mínar, sagði ég, Agnesi í bað takk og skúra eldhúsgólfið!
Já, mamma mín, við gerum það, sögðu vinkonurnar auðmjúkar.

Það var heldur ekkert svikist um og kökurnar voru líka skreyttar,- þessar elskurHeart.
Besta var að ég var alveg bjargarlaus og gat ekki hjálpað þeim, þannig að þær urðu að redda þessu sjálfar og gerðu það líka alveg. Oft held ég að maður taki of fljótt fram fyrir hendurnar á þeim þegar þau eru að gera eitthvað fyrir mann.


Náungakærleikur.

Ég hef fengið að upplifa náungakærleik í sinni bestu mynd. Allavega er fólkið sem býr hér í kringum mig búið að sýna mér náungakærleik og hann mikinn. Mér dettur í hug Amish fólkið sem hjálpar hvert öðru í öllum verkum.

Mér er skipað að liggja hér kyrr (á hægri hliðinni) og ekki gera neitt og þá meina þeir ekki neitt. Bara liggja fyrir og athuga hvort ég næ að minnka verkina með þessu. Þannig að ég geri það. Krakkarnir mínir eru mjög hjálpleg,- allavega eins og þau geta, en...

Ein nágrannakona mín kemur hér á morgnana og hjálpar þeirri minnstu í fötin, gengur frá eftir morgunmatinn og færir mér te í rúmið. Samstarfskona mín kom eftir vinnu í gær og ryksugaði allt húsið, þurrkaði af og skúraði. Á meðan eldaði hin fyrir bæði sína og mína fjölskyldu og sendi matinn yfir til okkar, þannig að við þurftum bara að borða. Ég fékk sendar tvær mackintosh dollur fullar af smákökum, tvær lagtertur og rúgbrauð (heimabakað) frá mömmu vinkonu dóttur minnar sem býr útí sveit. Ég fékk sendan heitan mat úr vinnunni í hádeginu í gær og var skömmuð fyrir að hafa skolað af disknum. Ég get haldið endalaust áfram. Fólkið hérna er frábært og það er alveg sama hver er. Ég bara verð að fá að segja frá því.

Takk fyrir mig. Lengi lifi Rangæingar!!!


Næsta síða »

Um bloggið

Hulda Brynjólfsdóttir

Höfundur

Hulda Brynjólfsdóttir
Hulda Brynjólfsdóttir

Móðir, kennari og náttúru-unnandi.   

 hulda67@gmail.com

Færsluflokkar

Apríl 2024
S M Þ M F F L
  1 2 3 4 5 6
7 8 9 10 11 12 13
14 15 16 17 18 19 20
21 22 23 24 25 26 27
28 29 30        

Nýjustu myndir

  • P1010079
  • ...di_p1010079
  • Tekið hef ég hvolpa tvo...
  • P1010098
  • P1010070
  • P1010053

Heimsóknir

Flettingar

  • Í dag (16.4.): 10
  • Sl. sólarhring: 10
  • Sl. viku: 10
  • Frá upphafi: 25848

Annað

  • Innlit í dag: 10
  • Innlit sl. viku: 10
  • Gestir í dag: 10
  • IP-tölur í dag: 2

Uppfært á 3 mín. fresti.
Skýringar

Innskráning

Ath. Vinsamlegast kveikið á Javascript til að hefja innskráningu.

Hafðu samband